23.03.1931
Efri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (988)

17. mál, brúargerðir

Frsm. (Jón Jónsson):

Brúargerðir hafa verið stórfelt viðfangsefni á okkar vatnamikla landi um langa tíð. Aðallega var hafizt handa um og eftir 1890 með byggingu Ölfusárbrúarinnar. Síðan miðaði brúargerðunum áfram hægt og gætilega, þangað til brúalögin komu 1919. En eins og ljóslega sést af því yfirliti, sem fylgir frv., komst fyrst eftir það mikill skriður á málið. Árin 1921–1929 hafa verið reistar 95 járnbrýr eða steypubrýr lengri en 10 metra fyrir samtals rúmlega 2 millj. kr., og eru það 2/3 allra stórbrúa, sem gerðar hafa verið síðan 1890. Sú ómetanlega samgöngubót, sem viða er orðin að þessu, stafar frá brúalögunum 1919. nú er svo komið, að flestar þær brýr, sem þá var heimilað að láta gera, hafa verið byggðar. Enn eru óbrúaðar 14 ár, sem þar komu til greina, en 54 eru nú brúaðar og auk þess fjöldi annara vatnsfalla, bæði á þjóðvegum og öðrum leiðum. Þegar svo langt var komið með þetta verkefni, hefir vegamálastjórninni þótt kominn tími til að rannsaka brúaþörf og brúarstæði á öðrum ám, og hefir verið unnið að því undanfarin ár. Þeirri rannsókn er ekki að fullu lokið. En samt hefir atvmrh. og vegamálastjóra þótt rétt að fá nú þegar ný brúalög.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir 46 nýjum brúm á þjóðvegum og endurbyggingum á 12 trébrúm. Auk þess er farið inn á nýjar leiðir, þar sem heimilað er að brúa 9 vatnsföll annarsstaðar en á þjóðvegum, þannig að ríkissjóður leggi fram allan kostnaðinn. Það eru brýr á stórum vatnsföllum, sem héruðunum er um megn að brúa yfirleitt, og helzt eru þær í þeim héruðum, sem hafa að öðru leyti mikinn brúakostnað. Og auðvitað eru þær brýr allar á mjög fjölförnum vegum, þótt ekki séu þjóðvegir.

Þá er hér í grg., þó að ekki sé það tekið upp í lögin beinlínis, yfirlit mikið um hér um bil 70 ár óbrúaðar á sýsluvegum, sem gert er ráð fyrir að brúa á næstu árum. Eins og áður er getið, eru nokkur brúarstæði á stórám enn ekki rannsökuð til fulls, einkum á þetta við vatnsföllin í Skaftafellssýslu, sem vart verða brúuð í nánustu framtíð. Eftir tillögum vegamálastjóra er gert ráð fyrir, að Hornafjarðarfljót verði ekki brúað, heldur sett bílferja á það. Þá mundi vera hægt að fara á bílum eftir söndunum vestur með sjónum og sleppa þannig við nokkrar brýr, og sé þá hægt að komast alla leið vestur í Öræfi, eftir að Jökulsá á Sólheimasandi hefir verið brúuð. En eftir upplýsingum frá hv. þm. A.-Sk. og öðrum kunnugum mönnum, mun þó þurfa að brúa Heinabergsvötn á þeirri leið. Getur því vel verið, að komið verði við 3. umr. með brtt. um að brúa þau. Um önnur vötn þar eystra er það að segja, að sumpart vantar upplýsingar, t. d. um Jökulsá í Lóni, sem sjálfsagt er hægt að brúa, en hlýtur að verða dýrt. Nokkrar ár á Austurlandi væri kannske ástæða til að taka hér upp í viðbót, og má þá bæta þeim við með brtt. Samkvæmt yfirliti um kostnað, er hann við þær brýr, sem taldar eru, 21/2 millj. kr., og vegamálastjóri gerir ráð fyrir, að verkinu megi ljúka á 10 næstu árum, ef fjárframlög verða lík og til jafnaðar síðasta aratuginn. Þetta væri mjög æskilegt, því að þá væri búið að brúa allar ár á flestum fjölförnustu vegum hér á landi. Ef bætt væri við nokkrum þeim brúm, sem ekki er búið að rannsaka skilyrðin fyrir, gæti það munað um 1/2 milljón kr., svo að verkið stæði þremur árum lengur en ella mætti gera ráð fyrir.

Nefndinni virtist frv. vel undirbúið, þó að alltaf geti komið til mála að bæta einhverju við, og hún leggur því til, að það sé samþykkt eins og það liggur fyrir.