25.07.1931
Sameinað þing: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (1207)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Pétur Ottesen:

Ég get tekið undir með hv. þm. Vestm., að ég greiði þessari till. atkv. með það fyrir augum, að sérstök áherzla verði lögð á hinn sögulega rétt Íslendinga til Grænlands. Eins og hv. 1. landsk. hefir tekið fram, er hinn sögulegi réttur að öllum hætti sterkari en réttur þeirra landa, sem nú deila um Grænland. Eins og kunnugt er, var landið fundið og byggt af mönnum frá Íslandi, og um margar aldir gilti íslenzkt réttarfar á Grænlandi. Og landið var nytjað af ísl. mönnum, þó að svo færi, að það týndist, ekki einungis Íslendingum, heldur líka þeim þjóðum, sem nú deila um það. Og það, sem sýnir, hve landið er nátengt Íslandi á allan hátt, er það, að við rannsóknir Dana á landinu hafa þeir orðið að fá Íslendinga til að þýða og skilja fornminjar, sem þar hafa fundizt. Þeir hafa orðið að sækja ísl. fjárstofn til þess að rækta þar, og ísl. menn til þess að leggja á ráðin, hvernig að skyldi farið.

Ég vil endurtaka það, að ég greiði till. atkv. með það fyrir augum, að á þeim vettvangi, sem á að flytja málið, verði hinum sögulega rétti haldið fram. Það er hinn sögulegi réttur, er Danir hafa byggt kröfur sínar á, og þó að þeim hafi tekizt að halda Grænlandi í slíkum heljargreipum, að það hefir verið útilokað frá menningarstraumum heimsins, þá virðist svo, sem sú aðferð sé ekki til þess fallin að byggja yfirráða- eða eignarrétt á henni. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég legg ekki mikið upp úr því að vera að halda á lofti rétti þeim, sem rekja mætti til sambandslaganna, enda hafa Danir sett hespu og lás fyrir, að þar sé um nokkra hagsmuni til handa Íslendingum að ræða á Grænlandi. Réttur Íslendinga er miklu eldri, og rætur hans liggja djúpt og víða í meðvitund íslenzku þjóðarinnar og fjölda margra erlendra fræðimanna víðsvegar um heim, sem tala um Grænland sem íslenzka nýlendu.

Þess má nú vænta, að Grænlandsnefndin hafi unnið að þessu máli, og það þannig, að þeir, sem flytja málið af hálfu Íslands, hafi betri gögn vegna rannsóknar nefndarinnar á þessu máli. Ég geri ráð fyrir, að svo mikil alvara hafi verið á ferðum þegar hún var skipuð, að skipun hennar hafi einhvern árangur borið.

Ég vil taka það fram, að þó að Danir eigi samkv. sambandslögunum að fara með utanríkismál vor, þá tjáir ekki að svo verði gert í þessu máli. Þar verður að vera bein þátttaka af Íslendinga hálfu; enda er þetta mál alveg sérstakt og þannig vaxið, að sjálfsagt er, að Íslendingar haldi fram á eigin hönd rétti sínum og kröfum fyrir dómstóli þeim, sem fjallar um þetta mál.