15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (1234)

180. mál, athugasemdir yfirskoðunarmanna landsreikningsins 1929

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Þetta hefir áður verið á dagskrá, og hefi ég gert grein fyrir till. og afstöðu n. til þáltill. Síðan hafa þessar 2 brtt. ekki verið teknar til athugunar af n., og hefi ég því ekkert að segja um þær fyrir hennar hönd, og það, sem ég segi, verður því frá eigin brjósti.

Brtt. á þskj. 298, frá hv. þm. V.-Húnv., er að efni til eins og till. fjhn. Munurinn er aðeins sá, að öðruvísi er sett í töluliði og stafliði. Það er því ekkert annað en hárnæm tilfinning fyrir formi, sem er ástæða fyrir till. N. hefir óbundið atkv. um þessa till. Ég fyrir mitt leyti geri að engu atriði, hvort hún verður samþ. eða ekki.

Þá er vatill. hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 266. Ég get sagt eins og hv. þm. V.-Húnv., að ég hefi ekki getað fundið, að aths. yfirskoðunarmannanna gefi tilefni til till. Nafn till. er eins og menn sjá: „Brtt. við till. til þál. út af aths. yfirskoðunarmanna landsreikningsins fyrir árið 1929“. Ég hefi ekki getað fundið neitt tilefni til till. Það gæti ef til vill verið 42. aths., sem hljóðar svo: „Á eftirfarandi liðum leggja yfirskoðunarmenn til, að verði leitað aukafjárveitingar“. Hennar hefir verið leitað. Ég get því ekki fallizt á, að rétt sé að bæta þessari vatill. hv. 2. þm. Reykv. við till. n. Að því er snertir efni hennar, þá á það víst að skiljast sem árétting um að greiða ekki fé umfram heimildir. Það er að vísu svo, að fjáraukalögin eru með hæstu fjáraukalögum, eða hæst. Ég hefi gert yfirlit yfir 4 ár, og sýnir það, að þau eru ekki svo tiltakanlega sérstök. Yfirlitið er yfir árin 1925 og 1926 annarsvegar, en 1928 og 1929 hinsvegar.

Árið 1925 voru þau 1 millj. 720 þús., árið 1926 1 millj. 751 þús., árið 1928 1 millj. 576 þús. og árið 1929 2 millj. 730 þús. Þessi fjáraukalög eru þannig hæst, en reynslan hefir sýnt, að ekki hefir þótt verða hjá því komizt að greiða fram yfir fjárlög og aðrar heimildir, þó það hafi verið misjafnlega mikið. Og þó að þingið vildi gera ályktun um þetta eftir till. hv. flm. og hnýta aftan við till. n., þá sé ég ekki, að sú ályktun sé neitt sterkari en fyrirmæli stjórnarskrárinnar. Í 37. gr. segir: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárl.“. Viðvíkjandi samanburðinum, sem hv. þm. var að gera á áætluninni og reikningnum og telja fram ýmsa liði, þá er auðvelt að sjá, að þessi munur er til staðar. En af þessum mismun eru fjáraukalög þetta ár, sem fyrr segir, 2 millj. 100 þús. kr. og hin fyrri fjáraukalög rúmar 600 þús. kr. Fyrir mismuninum að öðru leyti eru skýlausar heimildir. Eins og hv. þm. veit, þá er jafnan í fjáraukal. eftir á leitað hækkunar á öllu því, sem ekki hafa verið veittar heimildir til fyrir fram.