21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (1286)

368. mál, fátækraframfærsla

Flm. (Ólafur Thors):

Ég get verið ánægður með undirtektir hv. 3. þm. Reykv., og vil ég ekki vekja hér neinar deilur, þó að ræða hans gæfi nokkurt tilefni til þess.

Mér er ekki kunnugt um neina mótstöðu af hendi Sjálfstæðisflokksins gegn breytingum á fátækralöggjöfinni. Ég skal hinsvegar benda á það, að núv. hv. 2. þm. Skagf. hefir borið fram breytingar á þessum lögum, sem gengið hafa mjög í frjálslyndisáttina, þótt ég telji, að lengra verði að fara áður en markinu er náð.

Það er ekki mitt hlutverk að svara fyrir flokksmenn mína í Ed., en ég vil aðeins minna hv. 3. þm. Reykv. á það, að í dag tók flokksbróðir hans í Ed., hv. 2. landsk., þveröfuga aðstöðu við hv. jafnaðarmenn hér í Nd., og það í máli, sem þeir höfðu lagt mjög mikla áherzlu á. — En hvað sjálfan mig snertir, þá hefi ég alltaf verið með breytingum á fátækralögum, og hefi oft lýst því yfir, t. d. að ég væri mótfallinn því, að þeir, sem verða að leita á náðir sveitarinnar, missi við það atkvæðisrétt sinn. Hefi ég talið, að ákvæði 43. gr. fátækral. væru ófullnægjandi, en tvísýnt, hvort þau væru samrýmanleg við 29. gr. stjskr., og því talið eðlilegast að nema úr 29. gr. stjskr. ákvæðið um réttindamissi þeirra, sem standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk.