04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

1. mál, fjárlög 1932

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég vil að þessu sinni minnast fyrst á brtt., sem ég á með hv. þm. Ísaf. um 15000 kr. framlag til vegar yfir Breiðadalsheiði. Þessar 15000 krónur er aðeins ¼ þess, sem þarf til að gera bílfæran veg milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar. Vona ég, að hv. þdm. sé kunnug nauðsyn þessa vegar og samþykki þessa fjárveitingu, þar sem við höfum fært beiðnina niður um helming.

Þá á ég hér till. með tveim öðrum á þskj. 183, XXX um styrk til Önnu Bjarnardóttur frá Sauðafelli til utanfarar, til þess að kynna sér barnafræðslu og uppeldismál, að upphæð 1500 kr. Hún hefir haft skóla og kennt smábörnum ensku með ágætum árangri. En nú vill hún geta komizt utan til að kynna sér enn betur smábarnafræðslu. Í umsókninni er getið meðmæla frá ýmsum málsmetandi mönnum, svo sem Steingrími kennara Arasyni og Snæbirni Jónssyni skjalaþýðara og ennfremur frá enskri konu, Helen Lamb, sem oft hefir heimsótt hana og ber henni ágætan vitnisburð. Ennfremur fylgja beiðninni meðmæli frá menntamálaráðinu, sem telur fé mjög vel varið til að styrkja þessa konu.

Þá vil ég að lokum minnast á litla tillögu, sem fer fram á 200 kr. til gamals kennara, Sigurgarðs Sturlaugssonar. Hann er 65 ára að aldri og er farinn mjög að heilsu. Síðastl. 37 ár hefir hann verið meira og minna við barnafræðslu, en ekki á vegum skólanefnda og hefir því engin eftirlaun eða styrk úr lífeyrissjóði. Hefir sú verið venja að taka þá menn, sem þannig hefir verið ástatt um, í fjárlögin með 200 kr. styrk. Vona ég, að Alþ. sjái sér fært að veita þessum aldraða og heilsufarna kennara þennan lítilfjörlega styrk.