05.08.1931
Neðri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Ólafsson:

Áður en ég fer út í einstakar brtt., vil ég þakka hv. fjvn. fyrir, að hún hefir tekið til greina óskir Rangæinga um brú á Þverá. Hinsvegar er ég ekki jafnþakklátur n. fyrir klausu þá, sem hún hefir bætt aftan við liðinn sem aths. Ég vildi gjarnan beina þeirri spurningu til n., hvort hún álíti, að láta megi alla aðra liði fara fram úr áætlun, en brúna megi því aðeins byggja, að þá sé eitthvert fé afgangs. Ég geri ráð fyrir, að n. eigi auðvelt með að svara þessu.

Þá mun ég víkja nokkuð að þeim brtt., sem ég er flm. að. Um IX. brtt. á þskj. l83 mun ég ekki orðlengja, þar sem ég geri ráð fyrir, að hv. meðflm. minn. (SvbH) muni tala fyrir henni. Ég vil aðeins benda á, hvílík nauðsyn er á að veita þessari konu styrk, og hversu verðug hún er hjálpar, þar sem henni þrátt fyrir hin langvarandi veikindi manns síns hefir enn tekizt að sjá fyrir barnahóp þeirra með hinni mestu snilli. Ég vona, að hv. þdm. taki vel þessari styrkbeiðni, og læt útrætt um þetta að svo stöddu.

Þá flyt ég ásamt hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. Vestm. till. um að veita Jóni Gizurarsyni frá Skarðshlíð nokkurn námsstyrk. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að margir þm. þekki þenna pilt, en mér er kunnugt um, að hann hefir meðmæli margra ágætra kennara, og þori að fullyrða, að ef styrkja á nokkurn námsmann, þá er þessi piltur þess verðugur. Þess þarf ekki að geta, að bændur eru yfirleitt ekki svo efnum búnir, að þeir geti styrkt syni sína til langs nám, og því eru efnilegir bændasynir oft útilokaðir frá slíkri fræðslu, ef hið opinbera réttir þeim ekki hjálparhönd. Fyrir þessum pilti liggur heldur ekki annað en að hætta námi í verzlunarfræðum, sem hann hefir stundað í einn vetur, en á tvo eftir af, ef honum kemur engin opinber hjálp, því að foreldrar hans geta ekki styrkt hann nema að nokkru leyti. Hann hefir hugsað sér að setjast að hér heima að afloknu námi og veita kennslu í verzlunarfræðum, en slíks er einmitt mikil þörf hér, enda hafa fáir undirbúið sig undir slíka fræðslu hér á landi.

Þá flytjum við hv. 2. þm. Rang. brtt. um fjárveitingu til mælinga á vatnasvæði Þverár og Markarfljóts. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir verið veitt fé í þessu skyni 2 ár undanfarið, samtals 20 þús. kr., að viðbættum 5 þús. kr., sem verja átti til mælinga í Hornafirði. Nú förum við fram á, að veittar séu 10 þús. kr., og séu af þeim 5 þús. kr. endurgreiddar til mælinga í Hornafirði. Liggur í augum uppi, að nauðsynlegt er, að fullkomnar mælingar og áætlanir séu fyrir hendi, þegar að því kemur, að hafizt verður handa um framkvæmdir. Vatnasvæðið hefir þegar allt verið mælt, en hinsvegar vantar töluvert fé til þess að vinna úr ýmsum gögnum, og förum við fram á 5 þús. kr. í því skyni.

Enn flyt ég brtt. um hækkun á eftirlaunum Valgerðar Steinsen. Henni eru ætlaðar í fjárl. 300 kr. á ári, og flyt ég brtt. um að hækka þá upphæð í 600 kr. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er það kunnugt, hve lengi og vel hún hefir unnið í þjónustu ríkisins, og skal ég því fara nokkrum orðum um það. 1910, þegar Vífilsstaðahælið var opnað, hafði hún verið ytra til þess að búa sig undir ráðskonustarf þar. Þar var hún síðan ráðskona til 1919. er hún missti heilsuna um tíma. 1922 varð hún ráðskona við holdsveikraspítalann í Laugarnesi, en var sagt upp stöðunni fyrirvaralaust og með öllu án saka eða tilefnis, eins og tíðkazt hefir upp á síðkastið. Yfirlæknirinn í Laugarnesi, Sæmundur Bjarnhéðinsson, gefur henni þann vitnisburð, að hún hafi verið sparsöm, ráðdeildarsöm og dugleg, og hefði ekkert verið út á hennar framkomu að setja. Nú kann vel að vera, að þessi kona hafi verið farin að gefa sig, enda komin yfir sextugt, en mér finnst þó allharkalega að farið, að henni skuli eigi vera ætlaðar nema 25 kr. á mánuði til að lifa á framvegis. Allir, sem til þekkja, vita, að hún hefir ekki verið þannig launuð um æfina, að hún hafi getað lagt svo mikið upp, að hún gæti lifað á því. Þess má getu, að Sigurður Magnússon, sem var yfirlæknir hennar um 10 ára skeið, fer mjög lofsamlegum orðum um þessa konu, eins og Sæm. Bjarnhéðinsson, og að margra áliti mun vitnisburður þessara merku lækna vega mikið. Ég er samþykkur því, að spara þurfi á ýmsum sviðum, en ég álít, að við eigum aldrei að spara okkur til skammar, eins og ég tel, að verið sé að gera, ef þessi brtt. mín verður felld. Ég þykist vita, að hv. þdm. átti sig á þessum pósti, og að þeir vilji ekki vinna til að spara á honum 300 kr.

Ég ætla ekki að fara út í það að ræða um aðrar till., en ástæða væri til þess að fara nokkuð út í þær till., sem liggja nú fyrir þinginu um Eimskipafélag Íslands, og þær umr., sem orðið hafa út af þeim. En þar sem menn hafa nú þegar farið allýtarlega út í það mál, þá mun ég ekki að sinni fara að ræða um það. Ég vil aðeins benda á það að ef fara á að taka ráðin af þeim mönnum, sem að þeim félagsskap standa, með of mikilli íhlutun um stj. og starfsemi fél., og ef ríkið á að fara að taka þessa starfsemi á sínar herðar, þar sem það nú hvort eð er leggur fél. styrk, þá álít ég bezt fyrir það að taka strax þetta félag á sína arma og koma því út í sömu ógöngurnar og síldareinkasala ríkisins er nú komin í, og eru fyrirsjáanleg forlög flestra ríkisfyrirtækja. En á meðan fél. er styrkt af ríkinu, þá á ekki að setja því önnur skilyrði en þau, að það haldi uppi öllum þeim ferðum, sem gert er að skilyrði fyrir þessu fjárframlagi, en það á með öllu að láta stjórn þess og starfshætti afskiptalaust.

Ef þeir menn, sem nú eru við fél., eru ekki færir um að stjórna því sem skyldi, þá er beinasta leiðin til lagfæringar á því sú, að láta þessa menn fara, en fá aðra hæfari í staðinn.

Ég held, að bezt sé að láta þetta félag afskiptalaust, en greiða því fé frá ríkissjóði fyrir þau störf, sem það vinnur í þágu alþjóðar. Það er sannfæring mín, að það sé of dýru verði keypt fyrir fél. að þiggja þenna styrk, ef hann á að kosta hluta af sjálfstæði þess.