05.08.1931
Neðri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1932

Sveinbjörn Högnason:

Ég get verið stuttorður um þær till., sem ég flyt hér. Flestar þeirra flyt ég með hv. samþm. mínum, hv. 1. þm. Rang. — Hann hefir nú þegar gert glögga grein fyrir þeim og rakið ástæðurnar til þess, að við berum þær fram.

Það eru þó tvær brtt., sem ég hefi borið fram, aðra með samþm. mínum, en hina einn, sem ég vildi fara nokkrum orðum um. Önnur brtt. er á þskj. 183, nr. LIV. Till. þessi fer fram á, að Ögmundi Sigurðssyni, fyrrverandi skólastjóra í Hafnarfirði, verði veitt 500 kr. árleg uppbót á eftirlaun sín. Launin verða þá 2500 kr. í stað 2000 kr.

Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum, hvers vegna ég álít það rétt, að þjóðin bregðist nú við í elli hans og láti hann fá þessa launahækkun, þegar hann nú hefir látið af störfum. Ég lýst við, að þessi maður sé öllum hv. þdm. svo kunnur, að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um það starf, sem hann hefir leyst af hendi í þágu lands og þjóðar. Ég vil aðeins benda á það, að meðan hann starfaði, þá gerði hann það ávallt fyrir mjög lág laun, vegna þess að skóli sá, er hann veitti forstöðu, átti alltaf í talsverðum fjárhagsörðugleikum. T d. mun skólastjóri hafa um allmörg ár starfað fyrir aðeins 1700 kr. um árið, an dýrtíðaruppbótar. En allir, sem til starfs hans þekkja, bera það, að hann hafi leyst það af hendi með hinni mestu prýði. Og um langt skeið var hann talinn einn hinna beztu skólamanna á landi voru. Skóla þann, sem hann starfaði við, gerði hann brátt að einum fjölsóttasta skóla landsins, þó að hann tæki við honum í fremur vondu ástandi hvað ytri aðstöðu snerti, frá hendi hins opinbera.

Ögmundur lét af skólastjórn á síðastl. hausti. Þá voru, eins og kunnugt er, gefin út lög um gagnfræðaskóla í kaupstöðum, og Flensborgarskólinn í Hafnarfirði lagðist þá niður sem sjálfsstjórnarskóli, eins og hann hafði áður verið, en gekk í stað þess undir hin nýju lög um gagnfræðaskóla.

Eftir umsögn, sem liggur hér fyrir frá fyrrverandi skólanefnd þessa skóla, þá er Ögmundur nú farinn að heilsu og orðinn nærri blindur. Þessi maður hefir því ekki öðru af að lifa en 2000 kr. eftirlaunum. Og ég veit, að allir hv. þdm. sjá, hve lítilfjörlegt og ódrengilegt það væri, að láta nú þenna mann líða skort í elli sinni, þegar hann er horfinn að heilsu og kröftum. Ég vænti þess því fastlega, að hv. dm. veiti till. stuðning við atkvgr.

Þá er hin brtt., sem hv. 1. þm. Rang. er líka flm. að, undir IX. lið á þskj. 183. Till. fjallar um að veita Sigríði Kjartansdóttur í Holti undir Eyjafjöllum 5000 kr. styrk, sökum sjúkleika manns hennar, séra Jakobs Ó. Lárussonar.

Ég veit, að öllum hv. þdm. er kunnugt um, hvernig hér er ástatt, og ég býst því við, að ekki þurfi að eyða mörgum orðum að þessari till.

Séra Jakob hefir nú verið veikur á annað ár, mjög þungt haldinn. Eins og gefur að skilja, þá hefir þessi sjúkleiki haft mikinn kostnað í för með sér fyrir heimili hans. Skyldmenni hans, sem hingað til hafa hjálpað, eru nú að þrotum komin um að halda því áfram. Og það er víst, að heimilið mun ekki til lengdar geta risið undir þeim mikla kostnaði, sem nú leggst því á herðar.

Þingið er nú búið að gefa fordæmi fyrir slíkum styrkveitingum, og ég er viss um, að í þessu tilfelli er meiri styrkþörf en oft áður, er slíkur styrkur hefir verið veittur.

Ég á að vísu aðrar till. hér, sem ég er meðflm. að, en hv. 1. flm. er búinn að skýra þær svo vel, að ég get nú látið máli mínu lokið.