20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

27. mál, einkasala á síld

Vilmundur Jónsson:

Ég get lýst yfir því fyrir mína hönd og flokksmanna minna, að við höfum ekkert á móti því, að breytt sé um skipun á stjórn síldareinkasölunnar. Hinsvegar fer því fjarri, að við getum fallizt á það fyrirkomulag, sem hér er stungið upp á, því að með þessu frv. er farið fram á að fela útgerðarmönnum fullkomið einræði um stjórn þessa fyrirtækis. Hér er lagt til, að útgerðarmenn velji 13 fulltrúa á aðalfund. sjómenn 8 og skipstjórar og stýrimenn 3. Nú skil ég ekki vel, hversvegna á að kljúfa sundur sjómenn og skipstjórnarmenn, nema e. t. v. af því, að hinir síðarnefndu eru margir útgerðarmenn, eða treystandi til að vera útgerðarmanna megin, er árekstur verður milli þeirra og sjómanna og verkamanna. Að sjómönnum er leyft að vera með, er vafalaust í vísu trausti þess, að svo sé um búið, að þeir verði í miklum minni hluta á þessari samkomu og ráði þar engu. Auk þess er illa viðeigandi að fela sjómannafél. fulltrúavalið. Sjómannafél. eru óvíða til, fámenn og lítt starfandi sem sjálfstæð félög, a. m. k. á Vestur- og Norðurlandi, en miklu meiri fjöldi sjómanna í sameiginlegum verklýðsfélögum. Það er líka næsta ósanngjarnt, að í stjórn þessa fyrirtækis eigi verkamenn ekki að hafa hlutdeild. Ef á að breyta fyrirkomulaginu þannig, að stofnað sé til aðalfundar til þess að ráða málum einkasölunnar og velja henni framkvæmdarstjórn, en því erum við ekki mótfallnir, þarf hann að vera skipaður svo, að allir hafi þar fulltrúa, sem eiga atvinnu sína undir því, að fyrirtækið gangi vel, og þá ekki miklu síður verkamenn en útgerðarmenn og sjómenn.

Við alþýðuflokksmennirnir munum flytja brtt. við frv. til tryggingar því, að réttur einskis aðilja verði fyrir borð borinn. Geri ég ráð fyrir, að við gerum það að till. okkar, að Alþýðusambandi Íslands, sem er samband flestra verkamannafél. og allra sjómannafél. á landinu, verði falið að velja fulltrúa á þennan aðalfund, sem bezt sé trúandi til þess að gæta þar hagsmuna beggja.