27.07.1931
Efri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (1604)

41. mál, veðdeild Landsbankans

Einar Árnason:

Út af þessari till. vil ég aðeins taka það fram, að frv., sem gekk í þessa átt, var á döfinni síðastl. vetur, meðan á þingi stóð. Hafði ég beðið prófessor Ólaf Lárusson að semja frv., en því verki var ekki lokið, þegar þingið hætti störfum. Nú mun það tilbúið, og er mér óhætt að fullyrða, að hæstv. stj. muni ætla að leggja það fyrir fjhn. mjög bráðlega, og ætlast hún því til, að það verði afgr. á þessu þingi.

Eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram, er hér um tvær leiðir að velja: þá, að ríkisstj. taki lán erlendis til kaupa á veðdeildarbréfum, eða að gera bréfin svo útgengileg, að þau megi selja á útlendum markaði.

Vil ég því leggja til, að till. þessari verði vísað til hv. fjhn., í þeirri von, að hún geti mætt þar frv. hæstv. stj., og geti þá nefndin tekið málið í heild til athugunar.