15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (1729)

272. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ef hv. þdm. er það áhugamál að vísa málinu til n., þá tjóar mér ekki að leggja á móti því, svo lítið sem ég á undir mér í þessari hv. d., þó að ég sé hinsvegar hræddur um, að það verði til þess, að málið komist ekki fram á þessu þingi, en á því er mikil nauðsyn. Ég gat þess áðan, að fiskveiðar fyrir Vestfjörðum væru mjög hættulegar, einkum á haustvertíðinni og fyrri hluta vetrar. Svo hefir þetta jafnan verið. En ég ætla, að hættan geti jafnvel orðið meiri í haust en nokkurntíma áður. Menn þar vestra setja nú miklar vonir á að selja kældan fisk til útlanda og munu því sækja sjóinn í haust og fram að jólum — og jafnvel lengur — af óvenjulegu kappi. Má því gera ráð fyrir sérstakri slysahættu á næstu vertíð. Vil ég af þessum ástæðum mega vænta þess, að till. nái fram að ganga þegar á þessu þingi.