21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (1747)

78. mál, skeytaviðskipti forsætisráðherra og konungs út af þingrofinu

Fyrirspyrjandi (Héðinn Valdimarsson):

Ég vænti þess, að ég megi skilja síðustu orð hæstv. forsrh., um að fulltrúar jafnaðarmanna geti fengið að sjá skeytin, þannig, að þeir séu ekki bundnir neinu þagnarheiti um það, því að þetta eiga allt að vera opinber skjöl, sem engu má leyna um, og eins skeyti konungs, sem ekki hafa verið lesin upp.

Ég tel enga ástæðu til þess að fara lengra út í málið, nema hvað ég vil lýsa yfir því viðvíkjandi afstöðu Erlings Friðjónssonar, að það er bókað í gerðabók flokks okkar, að hann mundi ekki greiða atkv. á móti bráðabirgðastjórn, ef hún yrði mynduð með stuðningi eða hlutleysi Alþýðuflokksins.