17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það hefir ekki farið leynt, að hv. þm. G.-K. hefir verið í verra skapi en aðrir þingmenn undanfarna daga. Þetta hefir birzt í framkomu hans allri, málróm og göngulagi og svo beinlínis við mörg tækifæri (ÓTh: Málróm og göngulagi! Hvernig ganga menn, þegar þeir eru í vondu skapi?). Ég býst við, að hv. þm. viti það, að sjá má á göngulagi margra manna, hvernig þeir eru skapi farnir. Greinilega sést það á þessum hv. þm. Þetta skap hv. þm. hefir sjálfsagt þurft að fá útrás, og ég ætla að vona, að þessi hrota muni nú nægja, svo að hann verði í betra skapi seinna. Margir líta svo á, að það sé mjög slæmt fyrir heilbrigði manna að vera í slæmu skapi mjög langan tíma. Vona ég, að hv. þm. fyrir þessa útrás fái betri líðan en hann hefir haft undanfarinn tíma.

Hv. þm. er auðvitað velkomið að fara í mál við mig. En ég verð að segja, að það fer ekki vel á því, að jafnframt því sem hv. þm. lýsir því átakanlega, að hann ætli í meiðyrðamál við mig, skuli hann viðhafa meiri meiðyrði en ég veit um nokkurn annan hér á þingi.