06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

1. mál, fjárlög 1932

Héðinn Valdimarsson:

Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. G.-K. að halda, að hann telji nokkrum trú um, að það sé einhver stórsigur í kjördæmaskipunarmálinu, að 2 sjálfstæðismenn og 1 jafnaðarmaður verði á móti 2 framsóknarmönnum í þessari n., sem ekkert á að gera nema rannsaka og koma með till um málið. Ætli 1 sjálfstæðismaður gæti ekki jafnvel komið með till. í þessu máli fyrir sinn flokk eins og 2. Við jafnaðarmenn þykjumst vel færir um að koma með álit og tillögur okkar á þingi, þótt við hefðum engan falltrúa í þessari humbugsnefnd.

Það, sem skiptir máli í þeim till., sem hv. 2. landsk. þm. bar fram í Ed. við þessa þáltill., var það, á hvaða grundvelli n. skyldi starfa. Þar stóð, að hún ætti „að gera rökstuddar till. um, hvernig bezt verði tryggt, að þingmannatala hinna ýmsu flokka á Alþingi sé jafnan í sem fyllstu samræmi við kjósendafjölda þeirra, og jafnframt um þá skipun Alþingis, að girt sé fyrir, að minni hl. geti borið meiri hl. ofurliði um úrslit mála, eða á annan hátt óeðlilega hindrað þingstarfsemi hans“.

Þetta er aðalatriðið og var það við kosningarnar. Og svo lengi sem þetta er ekki viðurkennt af Framsóknarfl., þá er ekkert unnið við nefndarskipunina.

Þess vegna veit ég, að hv. þm. G.-K. og hver, sem á hann hlustar. muni skilja, að það er ekkert unnið með því að áskilja sér, að í nefndinni skuli sitja 2 sjálfstæðismenn, 1 jafnaðarmaður og 2 framsóknarmenn, þegar um leið er gengið frá því skilyrði, sem hv. 2. landsk. þm. kom fram með í Ed. og ég veit ekki betur en að blöð og kjósendur sjálfstæðisfl. hafi verið sammála um um allt land fyrir kosningarnar. Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. skrifuðu báðir undir nál. um þetta mál, þar sem þessum grundvelli er algerlega sleppt. Þar með eru þeir flúnir frá þessum kröfum sínum.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. G.-K. sagði um verðtollinn, og hvort við jafnaðarmenn myndum ekki samþ. aðra tekjuauka fyrir stj., hefði verðtollurinn verið felldur, þá hefir þessu þegar verið svarað í Ed., þar sem formaður Alþýðuflokksins lýsti yfir því, að við myndum ekki samþ. neina tekjuauka með Framsóknarfl., nema þá, sem eingöngu yrði varið eftir okkar till., og áttum við þar fyrst og fremst við atvinnubætur og önnur slík ný og óumflýjanleg ríkisútgjöld samkvæmt stefnu okkar jafnaðarmanna. Með þessu er það skýrt tekið fram, að ekki mundu af okkar hálfu verða samþ. neinir varanlegir skattar til almennra þarfa ríkissjóðsins, og yrði því Framsóknarfl. sem slíkum ekkert gagn að þessum nýju tekjustofnum. En óhjákvæmilegt er að gera ráð fyrir sérstökum auknum útgjöldum vegna vandræða þeirra, sem atvinnuleysið skapar í landinu, og án þess getur ekki þingið skilizt við málin nema sér til skammar.

Hvort ég elski báða flokkana, held ég, að ég hafi sýnt bæði á landsmálafundum og á þingi, — og a. m. k. elska ég ekki hv. þm. G.-K. og ekki hæstv. stj.