29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég get í sjálfu sér tekið undir með hv. frsm. um það, að ekki sé ástæða til að fara í langar kappræður um þetta mál nú. Það hefir legið fyrir undanförnum þingum, og nú sýna flestir þdm. því þann sóma að ganga af fundi, svo að nú mun tæpur helmingur hv. þdm. vera á fundi. Og svo leiðinlegt sem það er að tala yfir hv. þm., þá er það þó enn leiðinlegra að tala yfir tómum stólum. En ég set öll þessi auðu sæti í samband við þau orð hv. frsm., að málinu væri að aukast fylgi á Alþ. En sannleikurinn er sá, að hv. flm. hafa smátt og smátt verið að ánetja einn og einn þm., sem nú loks hefir svo lofað því — með vondri samvizku þó — að styðja frv. Mér finnst þetta í raun og veru illa gert, að þeir menn, sem hafa unnið gegn þessu máli í ræðu og riti, en hafa nú snúizt á sveif með því, gegn betri vitund, þurfa að skrifa undir nál., er leggur til, að frv. verði samþ. Þetta er napurt háð um þá sjálfa. Og þó að hv. frsm. sé alkunnur fyrir kaldhæðni sína, hefir hann hingað til látið hana aðallega bitna á andstæðingum sínum.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um efnishlið þessa máls, en frsm. þótti nauðsynlegt að rifja upp ýms atriði því viðvíkjandi, og kemst ég því ekki hjá því að bæta þar nokkru við. Hv. frsm. vildi rökstyðja þetta mál með því, að íbúar þessa svæðis fengju vatn og rafmagn frá Rvíkurbæ. En ég vildi minna á það, að í fyrsta lagi eiga þessir íbúar í Skildinganesi rétt til þessara fríðinda samkv. vatnalögunum, í öðru lagi er tryggður þessi réttur með lögum frá 1923, þegar Reykjavík keypti Elliðaárnar af þessum hrepp. Í þeirri löggjöf er tekið fram, að hreppsbúar eigi heimtingu á að fá vatn og rafmagn frá Reykjavík, ef bærinn er aflögufær. Það liggur í hlutarins eðli, að bærinn er engu frekar aflögufær fyrir það, að með löggjöf verði þessi hluti Skildinganeshrepps innlimaður í Rvík. Réttur hreppsbúa til rafmagns og vatns er því nákvæmlega sá sami, hvort sem innlimunin fer fram eða ekki, og er fyrirfram tryggður með lögum frá 1923 — með frjálsu samþykki beggja aðilja. Ég veit, að Rvík hefir reynt að refjast um að standa við þennan samning. En hæstiréttur felldi þann dóm, að hreppsbúar ættu þau fríðindi, sem þingið hefði ætlað 1923 að áskilja þeim.

Þá vildi flm. byggja rétt sinn í þessu máli einnig á því, að hreppsbúar sæktu atvinnu til Rvíkur. Það má þá eins segja það, að Reykvíkingar sæki atvinnu til Seltjarnarneshrepps, og skýrslur henda til þess, að Reykvíkingar sæki meiri atvinnu til hreppsins en hreppsbúar til Reykjavíkur. Þá var það eitt, sem hv. þm. bar fram, að íbúar þessa hluta hreppsins hefðu óskað eftir því að verða innlimaðir í Rvík. Það er að vísu rétt, að hér var lagt fram á síðasta þingi undirskriftaskjal, sem ég hygg að hafi verið undirritað af 70–80 íbúum á þessu svæði, og farið fram á, að þessi innlimun færi fram. En á það má henda, að í hreppum eru yfir 500 íbúar, og þó að 1/5 hluti riti undir slíka yfirlýsingu, verður það alls ekki talin almenn sönnun um vilja íbúanna yfirleitt; auk þess hefir það upplýzt, að þeir, sem undir rituðu, voru flestir nýbyggjar, en allir eldri íbúar, sem betur skildu þarfir og hagsmuni hreppsins, skoruðust undan að ritu undir skjalið. Ég held því, að þetta geti ekki talizt sönnun um vilja íbúanna.

Það gæti og komið fyrir, eins og svo oft hefir borið við hér, að eldsvoði brytist út. En að stórbrunum hefir fækkað. má mikið þakka því, að nú er orðið mikið meira um steinhús; þá er brunuhættan miklu minni, þó að mér detti ekki í hug að draga úr hinu ágæta brunaliði, sem hvað eftir annað hefir sýnt, að það á skilið lofsamlegt orð í þessu efni. Ég vil svo minna á, að Alþingi hefir með sveitarstjórnarlögum frá 1927 skýrt kveðið á um það, að hreppsbúar eigi sjálfir að samþ. slíkt, áður en sameiningin fer fram, og það er líka til ætlazt, að sýslunefndin hafi umsögn um þetta.

Ég get vel gengið inn á það, að heppilegast sé fyrir Rvík að eignast þessa landspildu, og ég er engan veginn hissa á því, þó þeir beri þetta fram af miklu kappi, en það sannar ekki fyrir því, að málið sé réttlætismál. Það er alveg að sama skapi eins heppilegt fyrir Reykjavík að eignast þetta land eins og það er óheppilegt fyrir Kjósarsýslu og Seltjarnarnes. Frestur er á illu beztur. Ef það dregst að láta skipti fara fram, þá hækkar landspildan í verði með hverju ári. Allir vita, hve mikið verðmæti liggur í þessu landi, og því seinna, sem innlimunin fer fram, því hærra gjald verður ætlað þeim aðilum, sem landið missa. Ég mundi ekki vera á móti þessu máli, ef ég áliti, að það riði hagsmunum Reykvíkinga að fullu, ef þeir færu á mis við þetta. Hv. frsm. sagði, að möguleikar væru til að gera höfn á þessum stað, sem gæti keppt við Reykjavíkurhöfn. En mér finnst þetta ekki nægileg rök fyrir Reykjavík til þess að fá þingið til að samþ. fríðindatöku Reykjavík til handa. Ég veit ekki til, að það hafi komið til tals, hvað þá heldur komið á rekspöl, að byggja þarna höfn. Það getur verið, ef ég sæi framundan, að byggð yrði þarna höfn, sem gæti orðið skaðleg fyrir Reykjavíkurhöfn, að ég myndi taka það til athugunar, hvort ekki væri rétt gegn sanngjörnu verði að innlima þennan skika til Reykjavíkur. En það væri máske bezta sönnunin fyrir því, hvað dýrmætan sjóð bæði hreppurinn og sýslan á fólginn í þessum skika. Það er rétt, sem hv. flm. segir, að það liggja möguleikar til hafnargerðar þarna. Og ef svo yrði, þá ættu allir þeir, sem ekki eingöngu líta á hag Rvíkur, heldur sveitanna líka, að geyma Kjósarsýslu þessi fríðindi um óákveðinn tíma. Viðvíkjandi þeim rökum hv. þm., að næst þessari landspildu ætti að vera skemmtigarður Reykvíkinga, og eðlilegt væri, að Rvík hefði nokkur áhrif á það, hvernig afnot landsins væru þarna viðvíkjandi 3–4 grútarbræðslustöðvum, sem eyðileggðu afnot skemmtigarðsins, þá get ég vel fallizt á það, að ef Seltirningur vilja eyðileggja fyrir Rvík afnot skemmtigarðsins með lítt þarfri grútarbræðslu, þá finnst mér ástæða til að svara þeirri óbilgirni líkt og hv. flm. vill gera nú, en ég trúi því ekki, að ekki verði hægt að koma sættum á í því máli, ef til kemur.

Ég vil taka undir það með hv. frsm., að ekki er ástæða til að tala lengi um þetta mál, og ég vona, að hv. dm. sýni málinu ennþá þá aðstöðu, sem þeir hafa áður gert, að fella þetta mál, en bregðist þær vonir mínar, að d. felli málið, þá vil ég leyfa mér að vænta þess, að hv. flm. sýni a. m. k. þá sanngirni að taka fram í frv. skaðabótaupphæð til Kjósarsýslu og Seltjarnarneshrepps á þeirri skerðingu á gjaldstofni sýslunnar og hreppsins, sem myndi verða, ef frv. gengi fram.