07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Bjarni Ásgeirsson:

Ég skal ekki fara í langt karp við hv. 1. þm. Rang., en ég verð að segja það, að fyrir mig er það alveg spánný upplýsing, ef rétt er, að þetta mál sé ekkert hagsmunamál Reykjavíkur. En ef þetta er ekki hagsmunamál Rvíkinga, þá vil ég ganga til samninga við hv. 1. þm. Rang. um að bæta úr göllum þeim, sem hv. flm. telja á skipulagsmálum kauptúnsins. Ég er fús til samkomulags við hv. þm. um að semja lög um skipulag bygginga á Skildinganesi. Það gægðist nú reyndar út úr orðum hv. 1. þm. Rang., að Rvík þyldi ekki, að kauptún sprytti upp við hliðina á henni, og að hagsmunir Reykvíkinga stæðu að baki frv. Hv. þm. sagði, að ég hefði lagt því lið að ásælast land bæjarins og ætti því að bæta fyrir brot mitt með því að vera með þessu frv. Ég hefi nú ekki lagt mikla áherzlu á það að ásælast land bæjarins, þó ég að vísu greiddi atkv. í gær með kaupum á lóð handa ríkinu. Í því frv. var ekkert ákvæði um að flytja þessa umþráttuðu lóð út yfir lögsagnarumdæmi borgarinnar. Það er því allt annað að vilja taka hálfan hrepp út úr lögsagnarumdæmj Kjósarsýslu.