20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. (Pétur Magnússon):

Hv. 1. þm. Reykv. gerði mikið úr því, sem ég sagði um skaðabætur til Seltjarnarneshrepps. Ég sagði aðeins, að hann hefði vafasaman rétt til skaðabóta. Ég álít, að þetta mál sé hagsmunamál fyrir Reykjavík og engin ákvæði frv. bindi henni þunga bagga. Og Reykjavík er tvímælalaus vinningur að því, að þessi sameining verði sem fyrst. Ég geri ráð fyrir því, að allt Seltjarnarnes verði lagt undir lögsagnarumdæmi Rvíkur áður en langt um líður, og þó að það sé ekki gert nú, er ég ekki í vafa um það, að fleiri Reykvíkingar muni hallast að skoðun minni og annara stuðningsmanna þessa frv. um það, að sameining Skildinganess og Rvíkur sé hagsmunamál bæjarfélagsins, en að skoðun hv. 1. þm. Reykv.

Það hefir verið bent á það áður í þessum umr., að þarna suður frá er byggt alveg skipulagslaust, og hefir bæjarstj. ekkert tækifæri til þess að blanda sér í það mál. En nú bendir allt til þess, að þetta þorp og Reykjavík verði sambyggt eftir nokkur ár, og þá er í mesta máta óeðlilegt, að þau tilheyri sitt hvoru lögsagnarumdæmi. Því lengra sem líður, því meiri örðugleikar verða á sameiningunni, og kostnaður Reykjavíkurbæjar meiri. Þess vegna vil ég ekki verða til þess að tefja þetta mál, svo að það nái ekki fram að ganga nú á þessu þingi. En ef till. hv. l. þm. Reykv. verða samþ., verða þær vafalaust til stórrar tafar.