24.08.1931
Neðri deild: 40. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það, sem ég átti við með því að segja, að sáttasamningarnir hefðu gengið vel hjá hv. þm. G.-K., var það, hve vel honum hefði tekizt að vinna bug á sinni eigin sannfæringu í þessu máli. Verð ég að vita það, að hv. þm. er svo fórnfús, að hann fórnar sannfæringu sinni til þess að flokkarnir fallist í faðma um þetta mál. Mér þykir leitt, að hv. þm. hefir ekki flutt þessa ræðu sína. Hún hefði líklega orðið furðulegasta ræðan, sem flutt hefir verið á Alþingi. Vil ég því skora á hv. þm. að láta þessa ritsmíð sína koma út í víðlesnu blaði eða tímariti, svo að þjóðin geti orðið þessa fróðleiks aðnjótandi.