19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2101)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Ólafur Thors:

Ég ætlaði ekki að taka þátt í þessum umr. En hv. þm. Seyðf. fór háðulegum orðum um viðleitni fjhn. að koma viti inn í þetta frv. Hv. þm. man kannske, hvaðan hann hefir þessa hugmynd, sem hér liggur til grundvallar. Sá, sem fyrstur hreyfði þessu, var Jón Sigurðsson, þáv. 2. þm. Skagf. — nefnil. að taka af tekjum góðu áranna til hallærisáranna. Að svo miklu leyti, sem þetta frv. getur talizt einkaeign, er það eign sjálfstæðismanna. Annars er það eign fjhn. frá 1929. En jafnaðarmenn hafa reynt að krækja í þessa hugmynd í sitt frv. og klæða í sín föt.

Í 3. gr. er skýrt frá, hvernig tekna skuli afla í sjóðinn. Þegar tekjur ríkisins eru orðnar yfir 9½ millj., eiga 15% af næstu 2 millj. að renna í hann, en 35% af því, sem þar verður yfir. Ég skal geta þess, að samkv. grg. frv. er þetta miðað við nýju fjárlögin. Ef tekjur ríkissjóðs yrðu 15 millj., myndi renna milli heillar og hálfrar millj. í þennan sjóð. Hér er farið fram á, að þegar ríkisbúskapurinn er rekinn með halla, þá sé lagt í þennan sjóð af tekjuafganginum. Og þegar nokkur hundruð þús. kr. af slíkum tekjum eða tekjuhalla eru komnar í þennan sjóð, þá koma flókin fyrirmæli um, hvernig verja skuli því, sem ekkert er, hverjir landsmenn skuli njóta þess. Það er stjórn Alþýðusambandsins og Búnaðarfélagsins, sem því eiga að ráða. Ég get ekki séð, að í þessu frv. sé svo um hnútana búið, að það sé í viðunandi formi. Og af því að allir í n. voru sammála um þetta, kom okkur saman um að reyna að bæta úr þessu með nýju formi á þessari ágætu hugmynd Jóns á Reynistað. Ég fullyrði ekkert um, að það sé ákjósanlegasta formið, og er reiðubúinn til þess að gera hreytingar. Ég get tekið undir það með hv. þm. Seyðf., að 1. gr. er nokkuð óljóst orðuð. En hinsvegar veit hv. þm. Seyðf., að það er stundum ekki hægt að komast hjá ólögbundnum útgjöldum. Annars get ég vel sagt, hvað fyrir mér vakir með því að flytja þessa till. Það er að tryggja þinginu fjárveitingarvaldið, en á það hefir mikið skort undanfarið kjörtímabil.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Seyðf., að þetta frv. gengur skemmra í því að mæla fyrir um það, að umframtekjur skuli jafnan vera handbærar til atvinnubóta í misærum. En ég vil benda á, að afleiðing af framkvæmd 4. gr. yrði sú, að ríkissjóður hefði miklu betri aðstöðu til þess að hlaupa undir bagga með atvinnurekstri landsmanna og atvinnuþörf almennings, ef umframtekjum verður varið til þess ýmist að borga tekjuhalla eða greiða skuldir ríkissjóðs. Fjárhagur ríkisins verður með meiri blóma en áður hefir verið, þar sem jafnvel í góðæri hefir einnig verið stofnað til skulda.