22.07.1931
Neðri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (2183)

50. mál, tolllög

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta frv. hefir verið flutt á 3 síðustu þingum, en ekki náð afgreiðslu á neinu þeirra.

Hér er farið fram á, að tollar á kaffi, sykri og kaffibæti verði lækkaðir um 1/3–3/8 hluta. Frv. ber að skoða sem eitt spor í þá átt að afnema þessa tolla og aðra nauðsynjavörutolla að fullu. En hér er ekki gengið lengra, af því að engin von þótt til að fá þá afnumda eins og þing er nú skipað, og jafnframt eru flutt önnur frv. um lækkun og afnám tolla á ýmsum öðrum nauðsynjum.

Ég hefi margsinnis áður sýnt fram á það, að þessir tollar eru svo háir, að engir aðrir tollar komast í samjöfnuð við þá, og mun láta nærri, að tollar þessir nemi til uppjafnaðar um 100% á innkaupsverði, eða h. u. b. helmingi þess, sem almenningur í landinu greiðir fyrir þessar vörur. Þessi feikna tollaálagning á vörur, sem fyrir fjölda manna eru blátt áfram nauðsynjavörur, er alveg óafsakanleg.

Tekjumissir ríkisins, sem ætla má að verði af frv., eru réttar 225 til 230 þús. kr., ef miðað er við fjárlagafrv. stj. Þessi tollur er áætlaður í frv. stj. 850 þús. kr., en það er eins og fleiri liðir í þeirri áætlun svo „varlegt“, að með því er ætlazt til, að stj. hafi til umráða 200 til 300 þús. kr., sem hún geti ráðstafað að eigin geðþótta og án þess að spyrja þingið ráða, því að það er bersýnilegt, að tollarnir verða miklu hærri en þeir eru áætlaðir í frv. stj.

Ég sé enga ástæðu til þess að frv. sé vísað til fjhn. Það hefir verið þar svo oft og hv. þdm. hafa fulla þekkingu á þessu máli, og mörgum þeirra a. m. k. er það ljóst, hversu þýðingarmikið atriði hér er um að ræða. Ég legg því til, að málinu verði, að lokinni umr., vísað til 2. umr.