15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

1. mál, fjárlög 1932

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 297, sem ég vil fara um nokkrum orðum.

Fyrst vil ég minnast á brtt. undir lið XXI, um að veita bókasafninu í Hafnarfirði 2500 kr. styrk. Bókasafn Hafnarfjarðar, sem var stofnað 1922, á nú 1½ þús. bindi í safni sínu. Til þessa tíma hefir það verið svo, að það hefir einungis hlotið þann styrk, sem bókasöfn kaupstaða hafa fengið, 250 kr. En þegar þess er gætt, að safnið er svona stórt og bærinn er orðinn jafnstór þeim bæjum, sem hafa aukafjárveitingu til bókasafna sinna, þá getur það ekki dulizt, hvað upphæð þessi er lítilfjörleg.

Það er ætlazt til þess, ef þessi styrkur fæst, að haldið verði opinni lesstofu fyrir Hafnfirðinga, og vona ég, að öllum hv. þdm. sé ljóst, hve mikill ávinningur það er, bæði til aukins fróðleiks og til að halda unglingum frá óhollu götulífi.

Ég býst við, að hv. þdm. sjái, hvílík nauðsyn þetta er. En bókasafnið er ekki fært um að gera þetta upp á sitt eindæmi, og fer því fram á að fá þessa viðbót. Það er einungis ætlað til þess manns, sem þarf að vera á stofunni, því að bærinn leggur til húsnæði, ljós og hita.

Með hv. 2. landsk. hefi ég einnig borið fram undir lið II, á sama þskj., till., þar sem farið er fram á hærri upphæð í þessu augnamiði, 3000 kr., sömu upphæð og veitt er til bókasafnanna á Ísafirði og Akureyri. Þetta er sú upphæð, sem bæjarstjórinn í Hafnarfirði hefir farið fram á. En verði hún samþ., dreg ég hina till. til baka.

Þá á ég aðra till., undir lið XXXIII, með hv. 1. þm. Reykv., þess efnis, að í stað 8000 kr. til Stórstúkunnar komi 10000 kr. Við ætlumst til, að þessi styrkur verði ekki lækkaður frá því sem hann var 1931 og þá var hann 10000 kr. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það mál. Stórstúkan hefir sent hverjum einstökum þdm. bréf um það, hvað hún ætlast fyrir. Ætlun hennar er að auka bindindisfræðsluna í landinu og þarf hún þá að auka blaðakost sinn. Ég vona, að hv. þdm. sjái ekki fært að draga úr styrknum, þegar starfið eykst, og ég vona, að þeim blandist ekki heldur hugur um nauðsyn þess starfs, sem reglan rækir.

Þá á ég 2 aðrar brtt., undir lið III. og XIV., og eru þær báðar fluttar að tilmælum læknadeildar háskólans. Brtt. undir lið III fer ekki fram á nein aukin fjárframlög, heldur aðeins, að styrkur sá, sem veittur hefir verið til háskólans til kennslu í augnlækningum, sé bundinn við nafn Kjartans Ólafssonar. Vil ég fara nokkrum orðum um þá till.

Í reglugerð háskólans er fyrirskipað, að kennd skuli augnlækningafræði, og var Kjartan Ólafsson ráðinn til starfans eftir lát Andrésar Fjeldsteds og hefir hann haft hann síðan. En í sept. 1930 var honum sagt upp fyrirvaralaust, og það látið fylgja, að hann vanrækti sjúklinga sína og læknisverk. Nú er það svo, að þessi læknir er að áliti læknadeildarinnar sá eini, sem hefir þau skilyrði til að bera að geta tekið að sér þessa kennslu, enda mælti læknadeildin með honum í fyrstu og hefir ekki fundið neina ástæðu til þess að honum yrði sagt upp. Hann hefir aldrei vanrækt kennslustundir, en haft hylli nemenda sinna og nemendur hafa verið ánægðir með kennslu hans.

Þegar þetta bréf dómsmrh. kom til deildarinnar, mæltist deildin til þess við lækninn, að hann héldi áfram að kenna, meðan samið yrði og gerði hann það.

En lagfæring hefir ekki fengist á þessu og læknirinn hefir ekki fengið laun sín, þrátt fyrir það, þótt hann hafi haft kennsluna á hendi. Þess munu hvergi þekkjast dæmi nema hér, að háskóli fái ekki að ráða, hver hefir kennsluna á hendi í þeirri grein, sem háskólinn hefir til meðferðar. Hér er farið fram á, að ákveðið sé, að þessi læknir skuli hafa kennsluna á hendi á sama hátt og Ólafur Þorsteinsson í háls- og nefsjúkdómum og Vilhelm Bernhöft í tannlækningum.

Hin brtt. er undir XIV. lið. Það er nýr liður og er um kennslu í geðsjúkdómum. Fyrir nokkrum árum var því þannig farið, að Þórður Sveinsson læknir hafði þessa kennslu á hendi, en vegna heilsubrests varð hann að segja starfanum lausum. Þegar nýi Kleppur tók til starfa, átti form. læknafél. tal við dómsmrh. um það, hvort ekki væri hægt að setja í erindisbréf hins nýja læknis, að hann hefði þessa kennslu á hendi. En þetta gleymdist, og þegar læknaskiptin urðu, gleymdist þetta líka og engin kennsla fór fram í þessari grein.

Allir hv. þdm. sjá, hvílík þörf er á kennslu í þessum sjúkdómi ekki síður en öðrum, þótt ekki væri til annars en að héraðslæknar gætu gefið vottorð um sálarástand þessa og hins. Og á það ber einnig að líta, að það er þannig um geðsjúkdóma, að það er ekki sama, hvaða tökum þeir eru teknir í upphafi. Mistök í byrjun getur orðið þess valdandi, að sjúklingurinn ráfi upp frá því í myrkri vitfirringarinnar. Um leið og farið er fram á þessa fjárveitingu, vil ég því benda hv. þdm. á það, að með því að samþ. hana, geta þeir stuðlað að því, að þeir vesalingar verði færri, sem verða ofurseldir þessum sjúkdómi. Ég vona því fastlega, að þessi till. fái góðar undirtektir og nái samþykki.

Fleiri brtt. á ég ekki, þær hafa það sér til ágætis, að þær eru ekki háar og horfa til almenningsheilla. Vænti ég því góðra undirtekta.