20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (2427)

38. mál, vegalög

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Það er mjög að vonum, að Íhaldið og Framsókn deili skarpt um þetta mál, því að eins og sakir standa, þá er það þýðingarlaust atriði. Það er ekkert annað en látalæti að vera að bæta svo og svo mörgum vegum í vegalögin, þegar skornar eru niður, eins og nú er gert, allar fjárveitingar til vegalagninga. (BJ: Það getur haft þýðingu í framtíðinni). Rétt, en mér er þó nær að halda, að mörg, mörg þing verði búið að heyja áður en það fer að hafa gildi. Ég get ímyndað mér, að eftir þeim vegafjölda, sem þegar bíður í vegalögum, þá muni þó nokkrir áratugir líða, unz þetta kemur til framkvæmda, og það þótt meira fé væri lagt til vegagerða en nú er í fjárlagafrv. Það eru því ekki annað en látalæti að flytja þetta frv. á þessu stigi málsins, og fer vel á því, að þessir flokkar grípi tækifærið og búi sér þar til ágreiningsefni og látist rífast. En fyrst farið er að rekja þessa krákustigu út um land, þá vildi ég víkja dálítið að krákustigunum um myndun þeirrar stj., sem nú er í fæðingu. (Forseti: Ég vil minna hv. þm. á það, að málið sjálft er enn eigi komið til umr., og auk þess er þetta ekkert þingskapaatriði, og ég vil vona, að hv. þm. láti nú vera að ræða slík mál). Ég hlíti þá auðvitað úrskurði hæstv. forseta.