20.08.1931
Neðri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

38. mál, vegalög

Ólafur Thors:

Það var ráðizt mjög harðlega á mig áðan, hæstv. forseti, þar sem mér var brugðið um hið sama af hv. 2. þm. Rang. og stungið hefir verið að honum, nefnilega hringlandahátt og kjánaskap. Hv. þm. sagði, að ósamræmi hefði verið í atkvgr. minni um fjáraukalögin og LR. Hv. þm. man það vel, að ég sagðist mundu vinna til að samþ. LR með öllum hans göllum, ef brtt. hv. 2. þm. Skagf. við hann fengjust knúðar fram. (SvbH: Kom það fram í nefndarálitinu?). Ég held nú, að þessi bókstafs-prestur ætti að taka það trúarlegt, sem liggur í hlutarins eðli, eins og það, að ég væri meðmæltur till. hv. 2. þm. Skagf. um að gera leiðréttingu á reikningnum, þannig að ekki væri í honum nema 1 millj. kr. rannveruleg skekkja. Hv. þm. veit það, að ég hefði verið til með að samþ. reikninginn, ef þessi leiðrétting hefði fengizt.

Þá sagði hv. þm., að ég þættist geta lesið allan hug manna án þess að hafa annað fyrir mér en orð þeirra. Ég var nú satt að segja svo vitlaus, að ég hélt, að það, sem hann gefur í skyn með orðum sínum, myndi vera einhver spegilmynd af því, sem hann er að bögglast við að hugsa. Það getur vel verið, að þegar menn kynnast honum, taki þeir ekkert mark á því, sem hann segir, en ég hefi ennþá ekki haft tækifæri til þess að kynnast honum svo, að ég geti reiknað það út, hvort hann meinar það, sem hann segir, eða þveröfugt.