24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (2467)

67. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Jón Baldvinsson:

Á laugardaginn var, var sú uppástunga í Alþýðublaðinu, að lagður yrði nýr vegur milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Á mánudaginn lagði síðan hv. þm. Hafnf. frv. þetta fram í d. Gott væri, ef íhaldsmenn væru alltaf svona fljótir að tileinka sér skoðanir og tillögur jafnaðarmanna. Sízt er það að lasta, að hv. þm. og flokkur hans ætla, að styðja þetta mál. En ýmislegt vantar í þetta frv., svo að vel sé, t. d. ákvæði um það, að byrja skuli á vinnunni nú þegar.

Það væri í alla staði æskilegt, að samkomulag gæti orðið um það að veita svo rækilega fjárupphæð í þessu skyni, að hægt væri að byrja á þessum vegi strax, því að jafnframt því, sem hér er um nauðsynlega samgöngubót að ræða, mundi þetta verða nokkur hjálp í því atvinnuleysi, sem nú steðjar að. Þessi vegarlagning er og einn liðurinn í þeim till. um atvinnubætur, sem við Alþýðufl.menn munum bera fram á þinginu bráðlega.

Það er auðvitað ágætt að fá þennan veg, en ég er ekki viss um, að útreikningarnir frá 1917 séu nú góðir og gildir. Umferðin milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar er orðin það mikil, að nauðsynlegt er, að vegurinn verði gerður svo hreiður, að stærri bílar komist eftir honum en nú eru í förum á þessari leið. Ef vegurinn verður lagður, þarf því að hafa það hugfast, að hann verður að vera svo úr garði gerður, að stærri mannflutningabílar komist eftir honum, svo að allir flutningar þess leið verði ódýrari en þeir eru nú. Eins og stendur kostar farið til Hafnarfjarðar eina krónu, en gæti lækkað að miklum mun, ef vegurinn yrði gerður það breiður, að hægt væri að koma við stærri bílum. Myndu þá strax takast fastar ferðir með stórum mannflutningabílum á milli bæjanna, þar sem fargjaldið yrði ef til vill ekki nema 30–40 au., í stað krónu nú.

Ég vil mæla með því, að frv. verði vísað til n. og fái sem fljótasta afgreiðslu af n., en óska þess jafnframt, að aðrar till., sem frv. snerta, verði teknar til athugunar í sambandi við það. Á ég þar við till. okkar Alþýðuflokksmanna, sem ég áðan nefndi. Þær fara í sömu átt og frv., um leið og þær taka til fleiri framkvæmda, sem nauðsynlegt er að gera, vegna atvinnuleysisins fyrst og fremst, og kemur því til athugunar, hvort hægt er að samlaga frv. og þessar till. eða ekki. Frv. gerir ekki ráð fyrir því, að byrjað verði á þessum vegi strax, þó að hv. flm. virðist ganga út frá, að svo verði gert, og þarf því að setja ákvæði um það í frv., ef ekki verður svo um búið á annan hátt.