15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

1. mál, fjárlög 1932

Pétur Magnússon:

Það voru nokkur orð, sem hv. 3. landsk. beindi til mín, sem valda því, að ég stend upp aftur. Honum þótti ég hafa ofmælt, þegar ég sagði, að nálega á hverri síðu í þessari margumræddu „skýrslu“ væru missagnir, eða reynt að draga taum ríkisstj. og flokks hennar. Til sönnunar þessu taldi ég upp 11 kafla af 20, sem í bókinni eru, sem ég taldi, að væru allir meira og minna litaðir.

Hv. 3. landsk. reyndi ekki að hnekkja því, sem ég sagði, eða véfengja, að neinn af þessum köflum væri hlutdrægur, en hann nefndi 3 af 20 köflum bókarinnar, sem hann skoraði á mig að sýna nokkra hlutdrægni í.

Ég skal játa þegar, að í kaflanum um vita og um síma mun ekki vera neitt, sem hægt er að setja út á. En það er aðeins einn tíundi hl. af köflum bókarinnar. Sama er að nokkru leyti hægt að segja um brúakaflann. En þó verður því ekki neitað, að dálítil tilraun er gerð þar til þess að gylla eða draga fram, hvað brúargerðir hafi verið miklar á þessum árum, samanborið við það, sem áður var. Það er ekkert tilefni til þess, ef þetta á að vera hlutlaus skýrsla. Með skáletri er prentað, að af 120 brúm hafi 80 verið gerðar á þessu síðasta kjörtímabili. Í hlutlausri skýrslu er ekki verið með þessháttar áherzlur. En þó er þetta út af fyrir sig ekki til að hneykslast á.

Um hinn kaflann, um áburðarsölu ríkisins, er það að segja, að ég sé ekki annað en að ef ætti að ganga út frá þessu sem óhlutdrægu riti, þá sé þar alveg ósæmilegt orðalag. Þar er verið að draga fram eina verzlunarstefnu á kostnað annarar. Strax á bls. 166 eru þessi orð: „Öngþveiti það, sem áburðarverzlunin var komin í, og nauðsyn þess að skapa nýtt skipulag á þessu sviði, ýtti mest undir að koma málinu í það horf, sem gert var“. Þessi staðhæfing er alveg órökstudd og umþráttað atriði, sem ekki á að leggja dóm á í slíkri skýrslu.

Á 168.–169. bls. eru þó miklu ótilhlýðilegri staðhæfingar. Neðarlega á 168. bls. stendur: „Áburðarsala ríkisins er í raun og veru einskonar lögbundin samvinna um áburðarkaup, skipulag, sem girðir fyrir það, að einn eða neinn geti fengið einkasölu á áburðarefnum, landbúnaðinum til óþurftar. — — Öll „einkasöluþvingunin“ er innifalin í því, að þeir (þ. e. þeir, sem verzlun reka) verða að sameina innkaup sín í skipulagsheild Áburðarsölu ríkisins, og um leið verða þeir þeirra hlunninda aðnjótandi, að fá áburðinn keyptan langtum lægra verði en mögulegt væri, ef verzlunin væri „frjáls“, sem kallað er“.

Að dómi þess, sem þetta ritar, er Áburðarsala ríkisins einhver allra heillavænlegasta og róttækasta ráðstöfun, sem gerð hefir verið, til þess að jafna aðstöðu allra bænda, sem við jarðrækt fást“.

Hér get ég ekki betur séð en að verið sé að halda fram ágæti einkasölu á kostnað frjálsrar verzlunar. Það má deila um, hvort heppilegra sé að hafa einkasölu eða frjálsa verzlun, en hv. 3. landsk. hlýtur að vera mér sammála um það, að dómar um þetta eiga ekki heima í hlutlausri skýrslu um framkvæmdir ríkisins.

Fleiri atriði eru um þetta mál, sem ekki eru hlutlaus. Á 182. bls. er fyrst tekið fram, að núv. stj. hafi beitt sér fyrir lagasetningu um einkasölu á tilbúnum áburði, og á næstu síðu segir: „Með tilliti til þess kostnaðar, er leiðir af hvorum þessara tveggja lagabálka fyrir ríkissjóð, má ætla, að lögin um tilbúinn áburð hafi haft enn meiri áhrif á ræktunina heldur en jarðræktarlögin. — — Áður en þau komu til, var óvíða átt við ræktun í kaupstöðum og þorpum hér á landi, og áhugi var almennt næsta lítill í þeim efnum“. Þetta er rangt, því að áður en áburðareinkasalan kom, var vaknaður talsverður áhugi fyrir aukinni ræktun í kaupstöðum, og þarf ekki annað en að nefna Reykjavík sem dæmi þess. Fyrra atriðið getur ekki verið sett í neinum öðrum tilgangi en þeim að sýna, að sú lagasetning, sem núv. stj. beitti sér fyrir, hafi orðið til meira gagns en það, sem áður hafði verið gert. Þessi staðhæfing er algerlega óviðeigandi.

Hv. 3. landsk., sem vafalaust gerði sér far um að reyna að finna þá kafla, sem hlutlausastir voru, verður því að játa, að jafnvel í þessum köflum, — einum þremur, sem hann gat nefnt af tuttugu, — er verið að draga fram eina stefnu á annarar kostnað.

Þetta er auðvitað ekki svo ákaflega ósæmilegt, ef litið er á ritið sem kosningabækling frá Framsóknarflokknum. Maður hefir séð hann svartari á síðustu árum. En ef á að líta á það sem kosningarit Framsóknarfl., þá er ósæmilegt og óviðunandi að láta ríkissjóð borga kostnaðinn. Það myndi hv. 3. landsk. a. m. k. finna, ef andstöðuflokkar hans gripu til slíks ráðs. Ég held, að það sé miklu skynsamlegra að kæfa þetta í fæðingunni, heldur en að halda því áfram eins og hv. 3. landsk. vill, til þess að tryggja, að slíkt geti ekki komið fyrir oftar, hverjir sem með völdin fara. Því að það getur aldrei orðið til þjóðþrifa, og verður ekki annað sagt en að það sé þjóðarskömm, að slíkt skuli hafa getað komið fyrir.

Það er algerður misskilningur hjá hv. 3. landsk., að andstaða okkar gegn þessu athæfi stafi af því, að við sjáum ofsjónum yfir því, að stj. skuli hugsast þetta. Ef stj., sem ég hefði stutt til valda, hefði gert annað eins og þetta, þá skyldi ég ekki hafa fylgt henni deginum lengur.

Þá var annað atriði, sem hv. 3. landsk. kom inn á, sem ég þarf að minnast á. Hann sagði, að ég héldi því fram, að hættulaust væri að hækka talsvert gjaldabálk fjárlaganna, vegna þess að tekjurnar séu svo varlega áætlaðar. Það er nú röng eftirtekt, að ég hafi sagt þetta. Ég hefi ekkert talað um þetta. Ég hefi sjálfur ekki borið fram nema örlágar till. um hækkaðar fjárveitingar. Þær munu nema 1/3% af gjaldabálki fjárl., svo að ef fjárlagaáætlunin er orðin mjög óvarleg, ef þær ná samþykki, þá er hún óvarleg nú þegar. Það er alls ekki þetta, sem ég var að tala um. Hitt sagði ég, að áætlunin eins og hún nú væri sé ekki svo óvarleg, að ástæða sé til að gefa stj. frjálsar hendur í þessu efni. Ég gerði grein fyrir, hve hættulegt það gæti orðið, ef út á þessa braut væri farið, og ég ætla ekki að fara að endurtaka þau rök.

Í sambandi við þau orð, sem hv. 2. landsk. beindi til mín út af ummælum mínum um, að tölurnar myndu yfirleitt vera réttar í skýrslunum frægu, skal ég geta þess, að það var aðeins ágizkun. Ég sagði, að ég gengi út frá því sem gefnu, hafði hinsvegar ekki athugað það. En ég verð að viðurkenna, að það hefir oft hent mig, síðan núv. stj. settist að völdum, að ganga út frá gerðum hennar skárri en þær hafa reynzt, þegar þær eru skoðaðar niður í kjölinn.