15.07.1931
Sameinað þing: 1. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (2520)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. 3. kjördeildar hefir nú lesið upp dálítið sýnishorn af því, hvernig kosningaundirbúningi hefir víða verið háttað. Aðalkjörskrá hefir aldrei legið frammi, engin aukakjörskrá til, — og engin kjörstjórn. Þetta og annað eins er ekkert einsdæmi. Í sumum hreppum hefir komið fyrir, að oddvitar kjörstjórnar hafa tvisvar týnt afritun af kjörskrám og tvisvar orðið að fá þau hjá sýslumanni. Víða hefir engin aukakjörskrá verið til. Hreppsnefndirnar hafa aldrei samið hana, og þar með svipt fjölda manna atkvæðisrétti.

Eftir þingrorfið var því beint munnlega til stjórnarinnar að gefa út bráðabirgðalög um samningu nýrrar kjörskrár. Menn höfðu ekki búizt við kosningum fyrr en 4. júlí. Fyrir því hafði verið vandað, til gömlu kjörskrárinnar, en samning þeirrar, sem gilda átti 4. júlí, var komin skammt á veg eða ekkert. Engin leiðrétting fékkst á þessu hjá stjórninni. Hefði þó ekki þurft annað en að láta semja aukakjörskrá. Sökum þessa trassadóms hafa mörg þúsund manna eigi getað neytt kosningarréttar síns. Ég skal ekki segja, að þetta hafi breytt úrslitum kosninganna, en það er jafnrangt fyrir því. En ég vil láta þetta koma fram, þó að ég viti, að hv. þm. sé kunnugt um, að kosningunum hafi verið að einhverju leyti áfátt í flestum hrepptnn. (JónasJ: Já, slæmt var það í Reykjavík). Ekki skal því neitað, en verra hefir það þó verið þar, sem engar kjörskrár voru til, eins og í Árnessýslu. Ég tel alveg sjálfsagt, að þingið sinni hærri kæru, sem því berst út af þessum efnum, og láti rannsaka hana. Minna má það ekki vera. Og því álít ég, að þessi kæra úr Árnessýslu eigi að fara til kjörbréfanefndar.