21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

Stjórnarmyndun

Jón Þorláksson:

Fyrir þrem árum síðan bar það við hér í d., út af aðfinnslum frá mér að gerðum þáv. og núv. hæstv. dómsmrh., að einn af flokksmönnum hans kvaddi sér hljóðs til að lýsa yfir því, að því oftar sem við andstæðingarnir veittumst að þessum ráðh., því fastar stæðu þeir flokksmenn hans saman um hann. En nú kemur enginn flokksmanna hans fram og talar þannig. Hæstv. ráðh. hefir glatað trausti allra betri manna í sínum flokki. Þannig tala verkin hans.

Mótstaðan gegn því, að hann tæki nú sæti í stjórninni. er hans eigið verk í hans eigin flokki. Og engan heilbrigðan mann furðar á þeirri mótstöðu. Hitt er meira furðuefni, að hún skyldi ekki nægja til að varna honum ráðherrastólsins.

Fyrir nokkrum dögum gerði hæstv. ráðh. sig að dómara yfir einum hinum bezta lækni þessa lands og kvað upp þann úrskurð um hæfileika hans, að hann væri óhæfasti maðurinn á Íslandi til að gegna stöðu þeirri, er hann var i. Nú hefir þessi sami maður gert sig að samskonar dómara á sviði lögfræðinnar og sagt, að lögfræðiskýringar Einars Arnórssonar væru fjarstæða og hlægilegur barnaskapur, talað um axarsköft í sambandi við lögfræðiþekkingu hans, að ótöldum ýmsum öðrum smánaryrðum. Ef nefna mætti brjálsemi í sambandi við þennan hæstv. ráðh., væri ekki hægt að kalla það annað en stórmennskubrjálæði, að fella slíka dóma um fremstu menn á sviði lögfræði og læknisfræði, ekki sízt þegar það er gert af manni, sem ekki ber skyn á þessar greinir.

Hæstv. ráðh. var að reyna að verja byltinguna 14. apríl í vor, en kom ekki fram með nein þau rök, sem hv. 2. landsk. hefir ekki þegar hrakið. Jafnvel beztu vinir Framsóknar í Danmörku hafa áfellzt stjórnina fyrir athæfi hennar þá, þótt þeir hafi viljað draga úr því. Hæstv. forsrh. viðurkenndi líka nokkrum dögum síðar, að stj. hefði framið stjórnarskrárbrot með þingrofinu.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að við myndun og lögmæti stjórnar kæmi ekki annað til greina en þingmannatalan. En vita má hann það, að ávallt endar illa fyrir þeim minni hl., sem ætlar að halda völdum í trássi við meiri hl., hvort sem hervald eða ranglát löggjöf er notuð til þess. Slíkt endar ávallt illa af því, að almennt er viðurkennt nú á tímum, að hin eina uppspretta valdsins sé hjá meiri hl. þjóðarinnar. Hitt er tilhögunaratriði, hvernig kosningum og skipun þings er hagað. En sú stjórn, sem ætlar sér að sitja móti vilja meiri hl. þjóðarinnar, er að brjóta niður grundvöll þingræðisins, en sá grundvöllur er sterkari en svo, að veik sál, eins og hæstv. dómsmrh., geti unnið á honum. Ranglætinu verður hrundið áður en langt um líður, og þá verður minni hl. að beygja sig.

Það hefir ekki þótt ástæða til þess á þessu sumarþingi að hefja þar aðgerðir, sem þarf til að kveðja saman landsdóm. En krafan um, að svo verði gert, er þó ekki niður fallin, og bæði hæstv. forsrh. og hæstv: dómsmrh. hafa gefið fullt tilefni til þess, að þess sé krafizt af dómsmrh., að hann sjái um, að löglega skipaður landsdómur sé til þegar tímabært þykir að kæra gerðir þessara hæstv. ráðh., eða áður en þing kemur saman í vetur. Nú er ekki hægt að kveðja hann saman, því að stjórnin hefir vanrækt að gera þær ráðstafanir, sem til þess þarf. Þótt ég treysti ekki hæstv. dómsmrh. í þessu efni fremur en öðrum efnum, beini ég því til flokksmanna hans, að þeir sjái um, að kosinn verði landsdómur fyrir næsta þing.

Ég veit ekki, hvort hæstv. forseti leyfir mér að taka til máls aftur, og vil ég því nota tækifærið til að láta í ljós, að ég samhryggist Framsóknarflokknum yfir því að vera svo bágstaddur að hafa orðið að setja þennan ógæfumann í ráðherrastólinn aftur.