27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

1. mál, fjárlög 1932

Steingrímur Steinþórsson [óyfirl.]:

Ég á hér tvær litlar brtt. og vil með örfáum orðum minnast á þær. Þær eru á þskj. 118. Aðra þeirra, XIII. till., flyt ég ásamt hv. samþm. mínum, og er hún um að veita 1000 kr. til Hóladómkirkju. Það hefir verið svo nokkrum sinnum áður, að þessi fjárhæð, 1000 kr., hefir verið veitt til dómkirkjunnar á Hólum. Því er þannig varið, eins og margir hv. þm. munu vita, að á sínum tíma var Hóladómkirkja rúin að flestu, sem hægt var að taka úr henni. Sumt eyðilagðist, en sumt var flutt á Þjóðminjasafnið í Reykjavík. Á seinni árum hafa verið gerðar tilraunir til að bæta úr þessu og færa kirkjuna aftur í sinn forna búning. Fornminjavörður varði þeirri fjárhæð, sem til þess var veitt, til þess að koma henni í það ástand, sem hún var í áður. Það er búið að setja aftur í kirkjuna allmikið af því forna tréverki, sem er eitt aðalfornskraut hennar, en mikið er eftir ennþá.

Við flm. till. förum nú fram á, að þessi litla upphæð verði veitt nú, til þess að megi halda áfram við þetta starf. Þetta er metnaðarmál fyrir alla þjóðrækna menn, að kirkjan geti verið sem næst því, sem hún var í upphafi. Með því að veita svona litlar upphæðir í einu, er hægt að vinna að þessu smátt og smátt, án þess að ríkissjóð muni mikið um það. Ég vona því, að hv. þm. sjái sér fært að samþ. þetta fjárframlag til Hóladómkirkju. Ég vil einnig geta þess í þessu sambandi, að okkur þm. Skagf. hefir borizt orðsending frá prestastefnu í Hólastifti, sem haldin var fyrir skömmu, og þar var þess óskað, að einhver fjárhæð yrði veitt til að færa Hólakirkju í það ástand, sem hún var í áður. Það er metnaðarmál allrar þjóðarinnar, að þessi kirkja geymist lengi sem forngripur á þessum stað, sem svo margar sögulegar minningar eru tengdar við.

Ég á hér aðra brtt. ásamt hv. þm. V.Ísf. og hv. þm. Dal. Hún er um það, að styrkurinn til Íþróttasambands Íslands, 4 þús. kr., verði hækkaður upp í 6 þús. kr. Þetta er gert með hliðsjón fyrst og fremst af því, að það hafi sama styrk og Ungmennasambandið. Þessar tvær hreyfingar eru hliðstæðar og einhverjar þær merkustu fyrir unga fólkið. Fátt er meira til þjóðþrifa en að auka og efla íþróttirnar, og vænti ég því, að hv. d. ljái því fylgi að hækka þenna styrk um 2 þús. kr. Við álítum, að þótt þröngt sé í búi hjá ríkissjóði nú, þá sjái Alþingi sér fært að veita þennan styrk, því að því fé væri áreiðanlega vel varið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Ég er meðflm. með hv. samþm. mínum um að hækka framlagið til fjallvega, með það fyrir augum, að nokkuð af því fari til fjallvegarins yfir Laxárdalsheiði í Skagafirði, en það hefir orðið að samkomulagi að taka það aftur til 3. umr.