13.08.1931
Efri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Hv. 2. þm. Eyf. var að reyna að verja ákvæði frv., sem vonlegt var, þar sem það upphaflega mun hafa verið stjfrv., flutt af honum á þingi í vetur. Hann segir, að frv. og fjárlagafrv. 1932 séu sniðin eftir danskri fyrirmynd. Því fer fjarri, að fjárlagafrv. fyrir 1932 sé samið eftir dönskum fjárl. eins og þau eru nú. Það er eiginlega hálfleiðinlegt að þurfa að leiðrétta svona missagnir hjá fyrrv. ráðh. En ég verð að segja frá því í fáum dráttum, hvernig dönsk fjárlagafrv. eru samin, og þar af geta hv. dm. séð, að það er fjarri sanni, að þeirri fyrirmynd sé fylgt hér. Þar er hver ríkisstofnun tekin út af fyrir sig og sett áætlun um rekstrartekjur og rekstrargjöld: og með gjöldum hennar eru taldir vextir af öllu því fé, sem stendur í þeirri stofnun. Þar eru svo náttúrlega taldar fyrningar, líka af þeim eignum, sem þessi stofnun hefir undir höndum. Þannig er það í dönskum fjárl., að áætlun um hverja stofnun fyrir sig verður fullkomin rekstraráætlun. Svo þegar kemur í þær gr., sem fjalla um ríkisskuldir, þá eru dregnir saman tekjumegin, þeir vextir, sem hver stofnun út af fyrir sig á að standa straum af, og gjaldamegin vextir af ríkisskuldum eins og þeir í raun og veru eru, og af almennum ríkistekjum þarf aðeins að greiða þann hluta vaxta, sem er umfram það, sem stofnanir eiga að standa straum af. En í þessu fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir, að hver stofnun standi straum af vöxtum þess fjár, sem í henni stendur. Þetta fjárlagafrv. er í raun og veru ekki annað en samræming við þá tilhögun, sem hefir verið á landsreikningnum síðan 1923, með þeirri viðbót, að sjáanlega er ætlazt til, að nú verði í staðinn fyrir skýrslu um eignir og skuldir ríkisins bætt við einum reikningi á landsreikninginn, nefnilega hreinum efnahagsreikningi. Því fer ákaflega fjarri, að þetta líkist nokkuð dönskum fjárl. Ég hefi bent höf. frv. á þetta. Hann sagði, að þeir hefðu ekki séð sér fært að fara út í það að láta hverja stofnun bera sína vaxtabyrði. En þar með er fallinn sá samanburður milli þessarar tilhögunar hér og þeirrar, sem framkvæmd er í Danmörku. Hv. 2. þm. Eyf. varði frv. með því, að það væri búið til af bókfærslufróðum mönnum. Ég efast ekki um, að allt, sem framkvæmt er eftir þessu frv. geti verið bókfærslulega rétt.

En ég hefi sjálfur verið það mikið riðinn við bókfærslustörf og útbúnað bókfærslu fyrir fyrirtæki, að mér er ljóst, að það er ekki nóg fyrir ríkisbúskapinn að láta bókfærslufróða menn hafa þetta starf á hendi, þótt það sé búið svo út, að það sé reikningslega rétt. Það er ýmislegt sérstakt, sem taka verður tillit til, þegar verið er að búa út bókhald fyrir einhverja tiltekna stofnun. Það er ekki von, að þessir bókfærslufróðu menn hafi nokkurt auga fyrir því, að það eru til hér fastar venjur, sem hafa verið ríkjandi hjá þjóðinni síðan 1874, og það er mjög varhugavert að uppræta þær, því okkar meginreglur í fjármálastj. hafa verið byggðar á þeim. Þetta hafa þessir bókfærslufróðu menn, sem eru nýkomnir frá skólum og enga reynslu hafa í þessum efnum, ekki auga fyrir, sem ekki er heldur von. Þessa hlið málsins ætti stj. sjálf að leggja til. Það eru eingöngu þau atriði, sem mér finnst vera ávant um.

Þessi brtt., sem ég ber fram, felur ekki aðeins í sér aðhald fyrir stj., heldur líka og ekki síður fyrir landsmenn. Ég skal gera ofurlitla grein fyrir þessu með dæmi. Það er handhægast að grípa til fjárlagafrv. fyrir árið 1932. Fyrri liðurinn í 21. gr. rekstraryfirlitsins endar gjaldamegin á upphæð, sem kölluð er rekstrarafgangur, og er hann talinn 810 þús. kr. Ég vil segja, að þm., sem lítur á þetta, verður að telja sér heimilt að fara nokkuð langt í því að koma með útgjaldatill., þar sem rekstrarafgangur er 810 þús. kr. í þessu frv. eins og það liggur fyrir. Hvað getur verið því til fyrirstöðu að ráðstafa rekstrarafgangi til nauðsynlegra útgjalda, þegar illa lætur í ári? En ef teknar eru 2–3 tölur, sín úr hverjum reikningi, þá get ég og aðrir fundið hinn eiginlega rekstrarafgang, sem er 223567 kr., því hitt féð er bundið í gjöldum með þeim samningum, sem landið hefir gert um afborganir á ríkisskuldum. Ég vil segja, að svona reikningsfærsla getur jafnvel villt einhvern af þm., og það er alveg vitanlegt, að þegar þessum tölum er slegið út í blöðum, þá villir það lesendur, þegar þeim er sagt, að fjárl. séu afgr. með 810 þús. kr. rekstrarafgangi. Þá halda þeir, að þessir peningar verði afgangs. Brtt. mín felur í sér, að á alveg reikningslega réttan hátt mundi gjaldaliður á þessum rekstrarreikningi hækka svo, að seinasta talan er sú, sem verður afgangs, þegar búið er að borga allt, sem skylt er að greiða og fjárveitingar eru fyrir. Ég legg áherzlu á, að ekki sé verið að rugla á þessu, og ekki finnst mér ná nokkurri átt að vera að tala um, að þetta séu umbætur á reikningstilhöguninni, sem gerir mönnum þær villingar, að þarna sé afgangur 587 þús. kr. hærri en hann í raun og veru er.

Ég vísa ekki til lakari fyrirmyndar en Svía, hvernig þeir ráða fram úr þessu. Það er svo sem auðvitað, að þetta spursmál, hvernig eigi að semja efnahagsskýrslu ríkisins, hefir verið margþvælt í öðrum löndum, og niðurstaðan hefir alls ekki alstaðar orðið sú sama. Ég bendi til Svía, því ég tel, að reglur þeirra eigi vel við hjá okkur sem stendur og séu í samræmi við þann hugsunarhátt, sem er alinn upp hjá kjósendum í þessu landi.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að sú tilhögun, sem ég sting upp á, væri bókfærslulega röng, en hv. frsm. leiðrétti þó þetta hjá honum. Það er líka alveg auðsætt, að mín tilhögun er bókfærslulega rétt, en hún miðar jafnframt að því að hinda hendur fjárveitingavaldsins hvað færslu fjárl. snertir.

Þá tók hv. 2. þm. Eyf. það til dæmis, að ríkið hefði byggt útvarpsstöð og tekið til þess lán, sem á að afborgast á 5 árum, og spurði síðan, hvort það væri meining mín, að það ætti þá að afskrifa útvarpsstöðina á fimm árum. Þetta mun hafa verið gert áður fyrr í Svíþjóð, en Svíar hafa nú gefizt upp á því. Ég hefi ekki heldur hugsað mér þá leið, að ríkisskuldunum væri þannig skipt niður á eignirnar, heldur hitt, að þær upphæðir, sem ríkið hefir samið um, séu færðar á efnahagsreikning sem niðurfærsla á bókuðu eignaverði ríkissjóðs í heild, og er sá tilhögun án vafa bókfærslulega rétt.

Hv. frsm. meiri hl. benti á það nú, sem kom til tals í n., að af þessu fyrirkomulagi gæti það leitt, að niðurfærsla á bókfærðu verði ríkiseignanna gæti orðið hærri en svaraði eðlilegum fyrningum. Skal ég ekki mæla á móti þessu, en vil henda á, að þetta kemur ekki að sök, þó ríkið eigi einhverjar eignir, sem búið er að færa niður um meira en hrörnun þeirra svarar. Þessari reglu er beitt við þau fyrirtæki, sem varlega eru rekin. Eigendur þeirra leyfa sér gjarnan að færa verðið á eignunum það mikið niður, að þær séu bókfærðar heldur lægra en hægt væri að fá fyrir þær. En ríkið kemst ekki svona langt í varfærni og gætni, því að seldi það eignir sínar, myndi kaupverðið sjaldnast ná bókuðu eignaverði, hvað þá heldur meiru. En þetta er því enginn galli á móts við það, að bókfærslan sé látin gefa það í skyn, að fé sé til á rekstrarreikningi, sem nota megi til annara gjalda, þó að því sé í raun og veru samningslega ráðstafað til afborgana af ríkisskuldum.