03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Pétur Ottesen:

Ég býst við því, að það sé réttmætt, og eins og nú er ástatt e. t. v. nauðsynlegt, að einhverjar ráðstafanir séu gerðar af hálfu hins opinbera, til þess að greiða götu manna í því efni að koma fiskinum á markað í því ástandi, sem markaðsskilyrði krefjast að hann sé, — að hann sé fluttur nýr út úr landinu. Ég hygg þess vegna, að frv., sem hnígur í þá átt, að hið opinbera styðji menn í því að koma fiskinum frá sér í markaðshæfu ástandi, eigi fullkominn rétt á sér. Það, sem einkum ber að stefna að, er það, að greiða fyrir fiskveiðamönnum með útvegun á skipum, sem til þess eru hæf að flytja fiskinn óskemmdan á erlendan markað. Hitt virðist mér ekki eins nauðsynlegt, að vera að ákveða það, að einhver sérstök stofnun á landinu eigi að standa fyrir rekstri skipanna, eins og hér er gert ráð fyrir, að Skipaútgerð ríkisins annist útgerð þeirra. Mér finnst, að þeim, sem veittur yrði slíkur atbeini sem frv. fer fram á, en það eru fiskimennirnir, að þeim ætti að vera trúandi fyrir því að sjá sjálfir um rekstur þessara skipa, og yfirleitt að koma sér þannig fyrir með sölu á þessum afurðum, að sem hagkvæmast væri fyrir þá sjálfa. En með þessu frv., og líka með brtt., er gert ráð fyrir að taka af þeim þessar framkvæmdir og láta Skipaútgerð ríkisins annast þær. Einnig á að koma upp söluskrifstofu, þar sem menn starfi að því að sjá um meðferð fiskjarins, sölu hans og útflutning. Ég held nú, að það sé svo hjá þeim, sem flytja út nýjan fisk, sem eru togarafélögin aðallega, þegar frá eru teknar þær tilraunir, Sem gerðar voru á síðasta ári til þess að færa þennan útflutning á víðara svið, að útgerðarfél. semji við sölufél. á þeim stað, þar sem markaðurinn nú er, um það að taka að sér söluna. Og hjá þessu fyrirkomulagi verður ekki komizt, þótt sérstakir menn verði skipaðir hér til þess að annast þessar framkvæmdir. Mér virðist þess vegna, sem fullkomlega mætti treysta þeim mönnum, sem líklegir væru til þess að ganga í þennan félagsskap, til þess að semja við slík fisksölufélög í Englandi, þar sem aðalmarkaðurinn fyrir þennan aukna útflutning okkar myndi verða.

Mér virðist því vafasamt, hvort þetta hvorttveggja út af fyrir sig myndi verða til nokkurra bóta. Hinsvegar myndi af þessu leiða nokkuð meiri kostnað heldur en ef útgerðarmenn og útflytjendur höguðu þessu eftir því, sem helzt ætti við í það og það skiptið.

Ég felli mig að ýmsu leyti betur við brtt. n. heldur en ákveðin í frv. Ég er n. sammála um það, að rétt sé að fara af stað eins og í till. hennar er gert ráð fyrir, þreifa fyrir sér í byrjun, en færa svo út kvíarnar, eftir því sem ástæður leyfa. Aðalatriðið með aðstoð hins opinbera á að vera það, að brjóta ísinn og stuðla að því, að framkvæmdir í þessum efnum hefjist og gera mönnum á allan hátt auðveldara fyrir.

Ég er sammála n. um það, að ekki sé rétt að einskorða aðstoð hins opinbera við samvinnufélagsskap. Við vitum það, að meginið af útgerð landsmanna er ekki rekið með því sniði, og ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess að útiloka einstaka útgerðarmenn og menn, sem hafa myndað félagsskap um útgerð, án þess þó að það sé samvinnufélagsskapur, frá stuðningi hins opinbera. Ég sé ekki annað en að þeir sem hverjir aðrir þegnar þjóðfélagsins séu réttbornir til þess að njóta stuðnings ríkisins í þessum efnum. Ég felli mig að þessu leyti betur við till. n. Og ég skoða þetta svo, þar sem hér er sagt, að útvegsmenn og sjómenn hafi myndað með sér félagsskap til fisksölu, að þetta sé ekki bundið við neinu sérstaka bátatölu, heldur að það geti heitið félagsskapur, ef menn á nokkrum bátum eða skipum koma sér saman um að koma afurðum sínum árlega á markað á þennan hátt.

Í nál. er vikið að því, að n. líti svo á, að fyrstu tilraunirnar eigi einkum að beinast að landshlutum þeim, sem skip og önnur tæki skorta til kæliflutnings á fiski, en félagsskapur sé hinsvegar hafinn til flutningsins. Ég held, að það sé svo yfirleitt um alla landshluta, að þá skorti skip til þessa flutnings, nema þar sem togaraútgerðin er. En eins og kunnugt er, þá eru togararnir notaðir jöfnum höndum til fiskveiða og til þess að flytja fiskinn á erlendan markað. Þegar togurunum sleppir, þá veit ég ekki til, að einn landshluti standi öðrum framar í því að eiga tæki og skip til þessa útflutnings, og þess vegna verður, að mínu áliti, að greiða úr þessu á þann hátt, sem þörfin kallar mest eftir og óskir koma fram um slíkan stuðning. Annars væri gott að fá að heyra það hjá n., hvað hún álítur, að felist í þessu, og hvort hennar meining sé, að einhver landshluti njóti þessa sérstaklega. Það á að koma skýrt fram, hvað í þessu felst, svo ekki verði farið að vitna í eitthvað og eitthvað, þegar þetta mál á að koma til framkvæmda. Hv. frsm. mun geta gefið upplýsingar um það, hvað hér liggur til grundvallar hjá nefndinni.

Ég hefi þá ekki ástæðu að svo stöddu til þess að minnast á fleira í sambandi við þetta mál. Ég mun greiða brtt. atkv. mitt, þó að ég sjái ekki ástæðu til frekari ráðstafana í þessu efni heldur en að veita fél. fiskimanna stuðning til þess að útvega sér skip til að annast þessa fiskflutninga.