03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

125. mál, fasteignamat

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég get sagt það að því er mig snertir, og að ég hygg meiri hl. fjhn., að ég lít svo á, að þetta yfirmat eigi að gilda um sýslurnar og þá einnig þau kauptún, sem þar eru. Hinsvegar lít ég svo á, að matið eigi ekki að ná til kaupstaðanna. Þar sem svo er til ætlazt, að þetta yfirmat sé framkvæmt eftir reglum, sem stjórnarráðið setur, álít ég vel farið, að það skuli koma fram, hvernig einstakir þm. líta á, að matið skuli framkvæma. Ég skoða það sem leiðbeiningar fyrir stj. þegar hún fer að ákveða starfssvið þessarar yfirmatsnefndar. Get ég tekið undir það með hæstv. forseta þessarar deildar, að nauðsynlegt er, að undir nefndina heyri fasteignamatið í sýslunum yfirleitt, eigi síður húsamatið en jarðamatið, þó að ég hinsvegar geti fallizt á að undanskilja kaupstaðina, eins og ég áður sagði, því að þessi yfirskoðun er ekki eins nauðsynleg þar af ýmsum ástæðum, og auk þess allmiklum erfiðleikum bundin.