01.03.1932
Neðri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

50. mál, leyfi til loftferða

Bergur Jónsson:

Það er auðvitað ekki nema gott eitt við því að segja fyrir samgmn., að hv. dm. bendi á það, sem þeim finnst athugavert við frv. þetta.

Við í samgmn. fengum í hendur frv., sem umboðsmaður umsækjanda hafði látið búa til. Og hinn stutta tíma, sem síðan er liðinn, hofum við reynt að athuga frv. og finna þau atriði, sem við álítum nauðsynlegt að breyta, til þess að tryggja rétt landsmanna. Ég ætla ekki að fara verulega út í þær aths., sem fram hafa komið; aðeins minnast lítilsháttar á þær.

Hv. þm. Dal. þótti skorta ákvæði í frv., sem tryggði það, að fél. misnotaði ekki aðstöðu sína á ófriðartímum og kæmi e. t. v. á þann hátt hlutleysi landsins í hættu. N. hafði þetta fyrir augum, og með tilliti til þess var 11. gr. frv. samin, þar sem það er ákveðið, að þau atriði skuli háð gildandi ísl. lögum og þeim reglum, sem um það kunna að verða settar af löggjafarvaldinu til þess að tryggja rétt landsmanna gagnvart starfsemi fél. bæði á friðar- og ófriðartímum. Ég álit það ekki rétt að taka ákvæði um slíkt upp í sjálft frv., heldur halda opinni leið fyrir löggjafarvaldið til þess að gera þær ráðstafanir í sérstökum lögum. Og slíkt mætti að sjálfsögðu taka til athugunar nú á þessu þingi.

Hv. þm. Ak. sagðist vera meðmæltur frv. í höfuðatriðum, en taldi sig þó hafa nokkuð við það að athuga. Ég vildi óska þess, að hann benti á eitthvað af þessum vafasömu atriðum nú þegar, því að n. mun vitanlega, þar sem hún hefir tekið að sér flutning frv., vilja athuga það sem bezt fyrir 2. umr., svo að hún geti þá komið fram með þær breyt., sem þörf þykir á vera.