02.03.1932
Efri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í C-deild Alþingistíðinda. (11222)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Jón Þorláksson):

Þetta frv. til stjórnskipunarlaga, sem flutt er af okkur þremur þm. í þessari þingdeild, sem sæti áttum í milliþingan. í kjördæmamálinu, er að efni til að miklu leyti shlj. frv. því, er við sjálfstæðismenn bárum fram hér á síðasta þingi. Mer þykir því eigi þörf vegna hv. þingdm. að gera grein fyrir efni þessa frv. í löngu máli, og það því síður sem ýtarleg grg. fylgir frv., þar sem er nál. frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í mþn. um skipun Alþ. og kjördæmaskipunina, sem útbýtt hefir verið til hv. þm. fyrir nokkrum dögum. Að því er snertir upplýsingar um þetta mál mönnum til handa utan þings, þykir mér rétt að taka það fram, að nál. er nú í sérprentun og verður fyrir hendi um næstu helgi, svo kjósendur munu þá fá tækifæri til að kynna sér álit og till. okkar tveggja þm. úr Sjálfstæðisflokknum, er sæti áttum í kjördæmanefndinni. Ég tel þó rétt að víkja nokkuð að þeim þremur höfuðnýmælum, sem frv. þetta hefir að flytja.

Hið fyrsta er, eins og um getur í fyrstu gr. frv., að Alþ. sé svo skipað, að hver landsmálaflokkur fái þingsæti í hlutfalli við atkvæðamagn sitt við undangengnar kosningar: Þingið verði þannig á hverjum tíma hlutfallslega rétt mynd af þeim almennuóskum og skoðunum kjósendanna, sem kjósendurnir leggja svo mikla áherzlu á, að þeir eftir þeim skiptast í flokka.

Réttmæti þessarar kröfu er viðurkennt í flestum löndum eða ríkjum Norðurálfunnar, og víðast hvar á þann hátt, að stjórnskipulög þjóðanna fyrirskipa, að kosningarréttur sé almennur og jafn, og sú krafa víðast tryggð með því, að viðhöfð er hlutfallskosning. Í nál. sjálfstæðismanna í kjördæman. er gerð nokkur grein fyrir sögulegum aðdraganda þess, hvernig tilhögun þessi hefir fengið almenna viðurkenningu í lýðræðisríkjum. Krafan um, að þingið sé ávallt rétt mynd af vilja þjóðarinnar grundvallast á þeirri skoðun, að þjóðfélagsvaldið sé sameiginleg eign allra fullveðja borgara í landinu, sem kosningarrétt hafa. Þótt aðrar kenningar hafi verið uppi um það, hvaðan þjóðfélagsvaldið sé runnið, þá er það þó þessi skoðun, sem nú er ríkjandi og er einráð í öllum lýðræðisríkjum.

Þar eð þessi sameiginlega eign manna til hlutdeildar í þjóðfélagsvaldinu er hluti af mannréttindum þeirra, getur þingið ekki verið réttur umbjóðandi þjóðarinnar, nema því aðeins, að það sé rétt mynd af þjóðarviljanum. Við höfum ekki viljað orða það svo sem tíðast er, að hlutfallskosningar séu fyrirskipaðar í sjálfri stjórnarskránni. Við höfum talið réttara að orða þetta líkt og gert er í grundvallarlögum Dana. Að vel yfirlögðu ráði höfum við haft ákvæðin um kosningatilhögun svo rúm, að þau útiloki ekki neina þá kosningatilhögun, sem rúmar það grundvallaratriði, að kosningarrétturinn sé jafn, hvort sem það heita hlutfallskosningar eða eitthvað annað.

Ég þarf ekki að tala fleira um þetta. Aðeins vil ég minna á, að afleiðing þessa er, að kjósa verður varaþingmenn jafnmarga og samtímis því að aðalþingmenn eru kosnir.

Önnur aðalbreytingin er sú, að nema burt úr stjórnarskránni öll þau ákvæði, sem binda tilhögun kosninganna, svo hægt verði að fullnægja grundvallaratriðinu um réttláta skipun Alþ. Núverandi stjórnarskrárákvæði binda svo kosningatilhögunina, að réttlæti er útilokað. Höfum við, sem störfuðum í mþn., ekki fundið hliðstæð dæmi um slíkar hömlur í stjórnarskrárlögum nokkurs ríkis. Venjan er sú, að í stjórnskipunarlögum eru annaðhvort engin ákvæði um kosningatilhögun, ellegar að ákveðnar eru hlutfallskosningar. Ég þarf ekki að gera nánari grein fyrir þessu. Það er öldungis ljóst, að til þess að geta fullnægt ákvæðum 1. gr. frv. verður að rýma öllu því burt úr stjskr., sem er því til hindrunar, að það mark náist, sem þar er sett.

Þriðja nýmælið er að rýmka kosningarréttinn, þannig að aldurstakmark til kosningarréttar verði 21 ár, jafnframt sem felld eru önnur skilyrði burt, sem nú gilda til kosningarréttar, önnur en þau, að menn hafi óflekkað mannorð og séu fjár síns ráðandi. Að auki er svo ákvæði um 5 ára búsetu hér á landi. Að við höfum ekki gert till. um, að það ákvæði verði fellt í burt, stafar af því, að það er komið inn í stjskr. af alveg sérstökum ástæðum, sem ekkert á skylt við hinn almenna kosningarrétt. Hinsvegar er það álit okkar allra, sem berum þetta frv. fram, að slíkt ákvæði hafi ekki við nægileg rök að styðjast, og við erum fyrir okkar leyti reiðubúnir til að fella það burt. Væru þá kosningaákvæði stjskr. komin í fullt nútímahorf.

Nú er oss kunnugt, að sumum munu þykja ákvæði þessa frv. allt of rúm. En okkur fannst rétt að stíga þetta skref til fulls nú þegar, svo allri deilu um það gæti verið lokið.

Ég mun svo að sinni ekki segja meira um ákvæði þessa frv. til stjórnskipunarlaga. En það er öllum ljóst, að bak við þessar breyt. á stjórnskipulögunum liggur atriði um tilhögun alþingiskosninganna. Og meginstarf kjördæmanefndar var að gera sér grein fyrir, hvaða kosningatilhögun menn gætu hugsað sér, eftir að hin nýja stjskr. hefir verið lögleidd. Þar koma til greina tvo höfuðatriði, sem við höfum fest auga á:

1. Að þingið verði samkv. 1. gr. rétt mynd af skoðunum og vilja kjósendanna í hvert sinn sem kosið er.

2. Að núverandi kjördæmi í landinu haldi áfram að senda sérstaka fulltrúa á þing.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í kjördæman. settu sér það verkefni að finna leið, sem fullnægt gæti þeim tveim kröfum, og við teljum okkur hafa leyst það verkefni. Í nál. okkar höfum við sýnt fram á, að þeir, sem leggja sérstaka áherzlu á, að núverandi kjördæmi fái að haldast, þurfa ekki að hika við að fylgja fyrri kröfunni. Það er hægt að sameina þetta tvennt, jafnrétti kjósendanna og núverandi kjördæmaskipun, án þess að því fyrirkomulagi fylgi nokkrir verulegir annmarkar. Út af umr., sem um málið hafa spunnizt utan þings, um kjördæmaskipun og kosningatilhögun, höfum við í nál. okkar gert grein fyrir því, hvernig hægt er að setja eðlilegar takmarkanir fyrir fjölda þingmanna. Þess vegna er það álit okkar, að með till. þeim, er við gerum um kosningatilhögunina, höfum við samið grundvöll að samkomulagi í málinu milli þeirra, sem mesta áherzlu leggja á sérstök kjördæmi, og þeirra, sem mesta áherzlu leggja á, að þingið verði rétt mynd af skoðunum og vilja kjósendanna.

Ég vil svo fyrir mína hönd og meðnm. míns í kjördæman. bera fram þá ósk, að frv. þetta fái fljóta og friðsamlega afgreiðslu í þinginu, svo það nái að verða afgr. sem lög. — Óska ég svo, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til sérstakrar 5 manna n., er kosin verði í þessu skyni.