02.03.1932
Efri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í C-deild Alþingistíðinda. (11225)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Jón Þorláksson):

Ég endaði fyrri ræðu mína með því að láta í ljós von mína um, að mál þetta fengi fljóta og friðsamlega afgreiðslu hér í þinginu. En ég verð nú að segja það, að ræða hæstv. forsrh. varð ekki til að styrkja þá von mína, heldur þvert á móti. Skal ég nú leiða nokkur rök að þessu.

Hæstv. forsrh. lét þess getið, að störfum mþn. væri ekki að fullu lokið enn, og gaf í skyn, að sú n. ætti eftir að halda marga fundi og fremja ný afrek. Ég lít nú svo á, að þegar nefnd er skipuð milli þinga, og sérstaklega þegar tiltekið er, að hún skuli ljúka störfum fyrir þing hið næsta á eftir, þá sé starfstími nefndarinnar þar með tiltekinn, og að starfstími kjördæman. hafi þess vegna verið útrunninn þegar Alþingi kom saman hinn 15. febr. síðastl. Að því er snertir afstöðu sjálfstæðismanna í nefndinni, þá skal þess getið, að á fundi í n. 16. jan. síðastl. lýstum við því yfir, að við teldum þýðingarlaust að halda áfram samvinnu við fulltrúa Framsóknarflokksins í n., en létum þess jafnframt getið, að við værum fúsir til þess að koma á fundi í n. áður en starfstíma hennar væri lokið, til þess að ræða tillögur, er kynnu að koma fram frá hinum flokkunum, en engar slíkar till. hafa enn komið fram frá fulltrúum Framsóknarflokksins, þó að þeir hafi haft á orði, að þær kæmu síðar fram, eftir að starfstíma n. er lokið, að því er ég tel. Ég held, að það myndi ekki leiða til fljótrar afgreiðslu þessa máls, ef þessi mpn. ætti enn að sitja allt fram til næsta þings, eða ef til vill lengur. Ég hefi litið svo á, að árangur af starfi n. beri fortakslaust að leggja fyrir þetta þing og að nú verði ákvarðanir að taka.

Þá vék hæstv. forsrh. að því, að þetta stjórnarskrármál væri ekki úrslitaatriðið, heldur kjördæmaskiptingin og afstaða flokkanna og horfur til samkomulags í því máli. Hann hélt því sem sé fram, að áður en nokkuð yrði aðhafzt í þessu máli yrði að komast fyrir um það, hvort nokkurs samkomulags væri að vænta í kjördæmamálinu. Af okkar hálfu, sjálfstæðismanna; eru ekki í frv. gerðar neinar till. um að breyta núv. kjördæmaskipun, og af hálfu Framsóknarflokksins hafa engar slíkar till. komið fram. Ég hélt þess vegna, að það væri auðgert að fá samkomulag um að halda núv. kjördæmaskipting, og að það þurfi hvorki fresti né langar íhuganir til þess að komast að þeirri niðurstöðu. En hæstv. forsrh. lét hér í veðri vaka, að um óleyst ágreiningsatriði væri að ræða á þessum sviðum, sem gerðu það að verkum, að óforsvaranlegt væri að lúka málinu að svo stöddu, því að það gæti valdið samkomulagsslitum á næsta þingi og um leið valdið eyðingu málsins. Ég skil þetta ekki. Þá lýsti hæstv. forsrh. eftir því, að í frv. vantaði ákvæði um kjördæmaskiptinguna, og taldi hann þó tilefni hafa gefizt í mþn. til þess að taka slík ákvæði upp í frv., þar sem meiri hl. n. hefði í öndverðu fallizt á það grundvallaratriði að halda rétti núv. kjördæma til eigin fulltrúa. Ég vil leyfa mér að benda á, að þetta frv. kom fram í tillöguformi í nefndinni á fundi 14. des., svo sem sjá má í grg. frv., auðkennt I. Þær till. voru svo ræddar það sem eftir var af starfstíma n., og á fundi 6. jan. var samþ. að setja nefndarmönnum frest til þess að koma með brtt. við þessar till., sem legið höfðu frammi frá 14. des. f. a. Þessi frestur var síðan framlengdur nokkrum sinnum, til 14. jan. að ég ætla. En alls engar till. komu frá fulltrúum Framsóknarflokksins um að bæta við ákvæðum um kjördæmaskiptinguna. Ég get því með engu móti séð, að það sé á rökum byggt, er hæstv. forsrh. gerir það að aðfinnsluefni, að slíkar till. um kjördæmaskipting eru ekki teknar upp í frv., þar sem hvorki hann né meðnm. hans hafa brotið upp á slíku í n. Enda er það svo, að aðeins eitt ríki Norðurálfu hefir farið þá leið að taka ákvæði um kjördæmaskipun upp í sjálfa stjskr. Hitt get ég fallizt á, að þar sem þetta mál liggur nú fyrir þinginu, þá mun sú þingdeildarnefnd, sem fær frv. til meðferðar, taka þetta atriði sérstaklega til meðferðar og athugunar.

Það vakti alveg sérstaklega óhug hjá mér, er hæstv. forsrh. var að halda því fram, að við ættum í þessum málum að taka Englendinga til fyrirmyndar. Það vill nú svo til, að Englendingar, sem voru fyrstir þjóða til þess að koma á hjá sér umbótum á þessum sviðum, þeir eru nú í seinni tíð orðnir svo fastheldnir á þessa tilhögun, sem nú er orðin alveg úrelt, að þeir mega teljast eftirbátar annara þjóða um þessa hluti, þó að þeir á sínum tíma stæðu öðrum þjóðum framar í þeim efnum. Þó hefir það aldrei komið jafnátakanlega í ljós og við síðustu kosningar, hversu algerlega óhafandi sú kosningatilhögun er orðin, sem Englendingar eiga við að búa. Þó hafa þar í landi ekki önnur eins ódæmi átt sér stað sem hér, að minni hl. kjósenda í landinu ráði meiri hluta löggjafarsamkomunnar. Mér er ekki kunnugt um, að þær öfgar hafi átt sér stað nokkursstaðar annarsstaðar en hér. Í Englandi varð útkoman sú, að flokkur stjórnarandstæðinga var að heita mátti gersamlega þurrkaður út úr þinginu, og allir foringjar flokksins fellu með tölu, og þó fékk þessi flokkur 1/3 atkv. við kosninguna. Slíku fyrirkomulagi er ómögulegt að mæla bót, og það vakti þess vegna mikinn óhug hjá mér, er hæstv. forsrh. fór að benda á Englendinga sem fyrirmynd í þessum efnum.

Ég ætla ekki fyrir mitt leyti að stofna til neinna illinda að óþörfu um þetta mál; það mun af minni hálfu og míns flokks verða reynt til hins ýtrasta að fá á því friðsamlega lausn.

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um eitt atriði í frv., skal ég veita svör. Hann hélt því fram, að við hefðum ekki bent á neinar varnir gegn óviðunandi þingmannafjölda. Ja, það liggur við, að ég verði að skilja hæstv. forsrh. svo, að hann hafi ekki lokið við að lesa nál. okkar, því að þar er bent á algerlega fullnægjandi varnir gegn óviðunandi þingmannafjölgun.

Ég get fyllilega tekið undir með hæstv. forsrh. um það, að nú eru alvarlegir tímar og að því leyti alvarlegri fyrir okkur en aðrar þjóðir, að við eigum, auk viðskiptakreppunnar, við það að stríða, að kreppan mætir okkur á barmi ríkisgjaldþrots vegna ógætilegrar fjármálastjórnar undanfarinna ára. En ég skal vekja athygli hæstv. stj. á því, að slíkt ástand er illa til þess fallið að ætla að halda sjálfsögðum réttindum borgaranna, sem byrðarnar verða að bera, fyrir þeim sjálfum. Það verða ekki aðrir til þess kvaddir að bera byrðar hinna yfirstandandi erfiðleika, og það mun ekki stoða til langframa að fara þannig að, að halda fyrir þeim mikilsverðum og sjálfsögðum mannréttindum.