13.04.1932
Efri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í C-deild Alþingistíðinda. (11259)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. af hálfu Sjálfstfl. (Jón Þorláksson):

Ég vil byrja með að svara með nokkrum orðum síðustu ræðu hæstv. forsrh. við 2. umr. þessa máls, er hann flutti eftir að ég hafði tekið svo oft til máls við þá umr., er þingsköp leyfa. Hæstv. forsrh. fór að gera að umtalsefni persónulega flokksafstöðu mína við

nokkrar undanfarnar alþingiskosningar. Mér fannst satt að segja undarlegt af honum í sambandi við þetta mál að gera flokksafstöðu einstaks þm. að sérstöku umtalsefni. En þó hefði ég ekkert haft við það að athuga, ef hæstv. ráðh. hefði farið rétt með það, sem hann sagði, en það var öðru nær. Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði verið í kjöri 1919 af hálfu Heimastjórnarfl., skildist mér; en ég var alls ekki í framboði við þær kosningar, heldur sat hjá afskiptalaus. Þá sagði hann ennfremur, að ég hefði verið í kjöri 1922 sem sparnaðarbandalagsmaður, en þá fóru engar þingkosningar fram, og af þeim góðu og gildu ástæðum var ég ekki í kjöri. Hæstv. ráðh. sagði síðan, að ég hefði boðið mig fram 1923 af hálfu Borgarafl., en ég var þá ekki í kjöri af hálfu neins stjórnmálaflokks, heldur sem utanflokkamaður, eins og mikill fjöldi frambjóðenda þá. Enginn stjórnmálafl. var þá til í landinu með nafninu Borgaraflokkur, er sjálfur hafði nefnt sig svo. Þessu til skýringar vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa það, sem sagt er um þetta í skýrslu Hagstofunnar um þessar alþingiskosningar:

„Fyrir þessar kosningar 1923 gerðu andstæðingar Framsóknarfl. og Alþýðufl. bandalag með sér og tóku þátt í því Sjálfstæðisfl. og hið svo kallaða Sparnaðarbandalag, sem verið hafði á þinginu 1923, og yfirleitt aðrir andstæðingar Framsóknarfl. og Alþýðufl. Ekki hafði bandalag þetta neitt nafn, sem viðurkennt væri af öllum, en almennt var það kallað Borgaraflokkur, a. m. k. sunnanlands, og hefir það nafn því verið notað hér. Þegar á þing kom, var bandalagi þessu lokið. Kom þá Sjálfstæðisfl. aftur fram sem sjálfstæður flokkur, en af öðrum, sem þátt höfðu tekið í bandalaginu, var stofnaður nýr flokkur, sem nefndist Íhaldsflokkur“.

Af þessu má það ljóst vera, að við þessar þingkosningar var enginn stjórnmálafl., sem nefndi sig Borgaraflokk. Ég geri nú ráð fyrir, að hæstv. forsrh. hafi farið út í þetta efni í vissum tilgangi, og að hann hafi verið sá, að leiða dæmi að því, að tilvera landsmálaflokkanna væri svo tíðum breytingum háð og umskiptum, að ekki væri eðlilegt að miða ákvæði stjskr. við tilveru slíkra flokka. Um þetta má vitanlega ræða frá almennu sjónarmiði, en það er algerlega óþarfi að blanda flokksafstöðu minni þar inn í. Það er öllum kunnugt, að ég var í Heimastjórnarfl. meðan sá flokkur var til, og svo utanflokka þar til Íhaldsflokkurinn var stofnaður eftir kosningarnar 1923. En út af þessu vil ég segja það fyrst og fremst, að það var ekki óeðlilegt, þó að los kæmist á skipun þjóðmálaflokkanna á árunum 1919–1923. Eins og kunnugt er, höfðu landsmenn fram að árinu 1918 skipzt í stjórnmálaflokka eftir afstöðu þeirra í sjálfstæðismálum þjóðarinnar gagnvart Danmörku. En sá flokkaskiptingargrundvöllur varð að engu um leið og sambandsmálið var til lykta leitt og sambandslögin við Dani voru sett 1918. Af eðlilegum ástæðum þurfti þjóðin nokkurn tíma til að átta sig á flokkaskipun um innanlandsmál áður en hún fengi fast form. En það gerðist í þingbyrjun 1924; þá komst festa á um flokkaskiptingu í þinginu. Þó að hægt sé með rökum að benda á, að flokkaskipunin hafi verið óskýr og breytileg á þessu tímabili, af sérstökum ástæðum, þá er ekki hægt að nota það sem mótbáru gegn því, að byggja megi á tilveru flokka yfirleitt. Það heyrist að vísu oft, að flokkaskiptingin sé böl, og margir telja, að þjóðmálaflokkar eigi ekki að vera til, en þeir eru auðvitað eitt af úrræðum þjóðskipulagsins gegn mannlegum ófullkomleika í stjórnmálum. Og reynsla allra menningarþjóða, þar sem þjóðfélagsvaldið er byggt á lýðræði og almennum kosningarrétti, er sú, að hjá því verði ekki komizt, að kjósendur landsins skipist í landsmálaflokka, og fulltrúar þeirra einnig í þingunum. Ég held, að þó að flokkaskiptingin hafi sína galla, þá séu flestir sammála um, að betra sé að hafa afmarkaða flokka í þingi heldur en marga smáa hópa af óflokksbundnum þingmönnum. Það fer ekki hjá því, að þingstörfin bjóði þeim upp á ýmislegar freistingar til óhollari áhrifa á málin heldur en meðferð flokkanna er á þeim. Ég tel því, að ekki sé hægt með þessum rökum að mótmæla þeim ákvæðum í stjskrfrv., að flokkarnir fái þingfulltrúa eftir atkvæðamagni sínu við almennar þingkosningar. En ég get líka bætt því við, að hæstv. forsrh. og hans flokkur byggir brtt. sínar við stjskrfrv. á því sama og við sjálfstæðismenn, þ. e. flokkaskiptingunni, þó að við nefnum það þingflokka, en þeir stjórnmálaflokka í brtt. sínum. Þess vegna eru orð hæstv. ráðh. um þessa hluti harla léttvæg. Ef gera á breyt. á kosningafyrirkomulaginu, þá kemst enginn hjá því að viðurkenna skiptingu þjóðarinnar í landsmálaflokka og þingmanna í þingflokka.

Þá hafði hæstv. forsrh. það eftir mér, að ég hefði sagt, að Framsóknarfl. væri ekki trúandi til breytinga á kjördæmaskipuninni. Þetta sagði ég nú ekki. En ég sagði, að við ætluðumst til, að ákvarðanir um kjördæmaskipunina væru á sviði hins almenna löggjafarvalds. Og ennfremur, að Framsóknarfl. væri ekki treystandi til að fullnægja þeirri réttlætiskröfu, sem felst í 1. gr. stjskrfrv., ef það væri látið óbundið af stjórnarskránni. Ég áleit því, að ekki yrði hjá því komizt að binda hendur löggjafarvaldsins um þetta. — Ég vil þá, um leið og ég læt lokið þessu svari mínu til hæstv. forsrh., minna enn á það, að stjskrfrv. okkar er ekki um kjördæmaskipunarmálið. Réttlætiskrafan, sem felst í 1. gr. frv., er samræmanleg öllum þeim till. um kjördæmaskipun, sem enn hefir verið brotið upp á, og ég held ég megi fullyrða, að hún sé samrýmanleg hvaða aðferð sem um er að ræða, og einnig þeirri tilhögun í brtt. Framsóknarfl., þar sem gengið er út frá því að veita uppbótarþingsæti með einmennings- og tvímenningskjördæmum. Ég álít því ekki nauðsynlegt að tefja stjskrfrv. með ýmiskonar bollaleggingum um kjördæmaskipunina. Frv. fer fram á, að kjördæmaskipunin og kosningatilhögunin til samans fullnægi réttlætiskröfunni, og bindur sig ekki við annað.

Þá vil ég næst víkja að brtt. frá okkur hv. 4. landsk. á þskj. 372, sem fer fram á, að í 1. gr. frv. verði aukið því ákvæði, að þjóðkjörnir fulltrúar, sem eiga sæti á Alþingi, geti verið allt að 50, eða þannig orðuð, að í upphaf fyrstu málsgr. frv. komi allt að 50, en gr. er að öðru leyti óbreytt. Það var gerð grein fyrir því í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna í mþn. og endurtekið af mér við 2. umræðu þessa máls, að við myndum til samkomulags geta sætt okkur við, að sett væri í stjskr. ákveðið hámark á tölu þingmanna. Að sönnu álítum við þetta ekki nauðsynlegt ákvæði í stjskr., því að telja verður sjálfgefið, að kosningatilhögunin verði þannig, að tala þm. verði ekki of há. En vegna þess að því hefir verið haldið á lofti sem aðalmótbáru gegn till. okkar um kosningar og kjördæmaskipun, að eftir þeim gæti tala þm. orðið óhæfilega há, og af því að hún er ennfremur notuð sem mótbára gegn sjálfri réttlætiskröfunni í 1. gr. frv., þá höfum við ekki viljað eiga það á hættu, að þessu væri blandað saman og notað sem vopn í höndum þeirra manna, sem eru mótfallnir því að réttlætiskröfunni verði fullnægt. En fyrir henni viljum við berjast í lengstu lög. Þess vegna vildum við láta það koma ljóst fram, að frá okkar sjónarmiði væri ekkert á móti því að binda þetta atriði í stjskr., umfram réttlætiskröfuna, að tala þm. færi ekki fram úr vissu hámarki. Eins og hv. þdm. vita, þá hafa komið fram ýmsar till. frá öðrum en okkur sjálfstæðismönnum um kosningatilhögun og þingmannatölu, til þess að fullnægja réttlætiskröfunni, en engin þeirra hefir farið fram á, að þm. væru fleiri en 50. Með þessari brtt. okkar er því ekki bandað á móti neinni till., sem fram hefir komið. Ég get raunar ekki annað sagt en að það sé að sumu leyti eðlilegast, að tala þm. verði sú sama og hún er nú; en við álitum, að þessi hámarkstala, 50, sé svo há, að hið almenna löggjafarvald hafi nægilegt svigrúm, þó að þingmannatalan verði ákveðin innan þessa hámarks.

Þá liggja hér fyrir brtt. á þskj. 379, frá hv. 2. þm. Árn., og á þskj. 337, frá hv. 2. landsk. Ég ætla ekki að gera þær að sérstöku umræðuefni fyrr en hv. flm. hafa gert grein fyrir þeim. Þó vil ég nú þegar á þessu stigi málsins segja það um brtt. hv. 2. þm. Árn., þó að eitthvað megi út á hana setja, að hún er mjög stórt spor í áttina til samkomulags við þá flokka, sem halda fram réttlætiskröfunni í þessu máli. Og um brtt. hv. 2. landsk. vil ég segja, að þær fela yfirleitt ekki í sér annað en það sem kom fram í starfi hans í mþn. Það eru óskir hans og flokksmanna hans í þessu máli, sem víkja í engu frá kröfunni um réttláta skipun Alþingis. Því að ákvæðin um hana eru tekin eftir frumtill. og varatill. hans í milliþinganefndinni.