06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í C-deild Alþingistíðinda. (11290)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Ég ætla ekki að lengja umr. mikið. Hv. 2. þm. Skagf., frsm. 1. minni hl., byrjaði með því að halda fram, að Framsókn hefði skipt um skoðun í kjördæmamálinu. Held ég, að heppilegra væri, að þm. úr öðrum flokkum en Sjálfstæðisfl. töluðu um skoðanaskipti í þessu máli, því vitanlega hefir sá flokkur snúizt þar meira en nokkur annar. Fram að 1931 stóð flokkurinn öndverður öllum breyt. á kjördæmaskipuninni. Var hann við völd frá 1924–'27 og gerði ekkert til þess að breyta henni, en sólaði sig á meðan í völdunum. Hann gekk til kosninga 1927 í von um það, að hann myndi vinna kosningarnar með þeirri kjördæmaskipun, sem hann kallar nú rangláta, en tapaði. Á því stigi málsins vildi hann þó ekki taka upp aðra stefnu í þessu máli. Einn af ritstjórum flokksins hélt því þá fram, að breyta bæri kjördæmaskipuninni, en miðstjórn flokksins gaf þá út yfirlýsingu um það, að hún vildi ekki standa við orð ritstjórans. En í þinglok 1931 snýst flokkurinn loks algerlega í málinu, til þess að geta komið fram þeirri einu ósk, sem hann ber í brjósti, sem sé að steypa Framsókn úr völdum. Fékk hann félagsskap jafnaðarmanna til þess. Er það því óviðkunnanlegt, þegar sjálfstæðismenn eru að tala um skoðanaskipti.

Hv. 2. þm. Skagf. talaði mikið um áskoranir til Alþingis um breyt. á kjördæmaskipuninni. Verð ég að segja, að þær, sem komu úr Reykjavík og Hafnarfirði, voru svo orðaðar, að allir landsmenn hefðu getað skrifað undir þær. Var þar aðeins krafizt þess, að þingið yrði skipað samkv. vilja kjósenda. Þetta viljum við framsóknarmenn líka. Annars er það órannsakað, hve mikill hluti kjósenda stendur á bak við þessar undirskriftir. Er hætt við, að frádrátturinn yrði nokkuð mikill, ef það væri rannsakað til hlítar.

Þá lét hv. þm. það í veðri vaka, að flokkar mættu ekki vera svo eða svo fámennir. En ég veit ekki betur en að flestir stjórnmálaflokkar séu fámennir í byrjun. Sé ég ekki í þessu samræmið við hinar ströngu lýðræðiskröfur andstæðinga okkar, ef fáir menn eiga ekki að geta myndað flokk. Brýtur það bæði í bága við lýðræðishugsunina og anda stjskr. Þegar ég talaði um flokkslegt ranglæti í till. Sjálfstæðisfl., þá var ég aðallega að sýna fram á ósamræmið í meginreglu þeirra („flokkslegt réttlæti“) og því, að flokkur, sem skipt getur þúsundum, getur orðið algerlega afskiptur þingsæti eftir till. þeirra. Það var ekki ég, sem hélt því fram, að þetta ætti að byggja eingöngu á flokkslegu réttlæti.

Hv. 3. þm. Reykv. hefi ég ekki ástæðu til að svara neinu. Ég vil aðeins geta þess, að hann hefir enga heimild til þess að segja, að Framsókn hafi ekki þorað annað en láta undan í þessu máli. Framsóknarfl. hefir ekki látið undan. Hann stendur á sama grundvelli og áður. Hann hefir viljað halda uppi rétti hinna einstöku kjördæma í landinu og hefir aðeins tekið dálítið tillit til andstæðinganna um það að jafna nokkuð milli flokkanna. En af grundvelli sínum hefir hann ekki vikið.