06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í C-deild Alþingistíðinda. (11329)

95. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Halldór Steinsson:

Eins og ég gat um við 1. umr. frv. þá er ég mótfallinn því, að þetta frv. verði gert að lögum. Hér er verið að leggja til, að stofnað verði nýtt embætti með 3000 kr. árslaunum. Er það í ósamræmi við margyfirlýsta stefnu þessa þings, sem yfirleitt aðhyllist frekar fækkun en fjölgun embætta. Þetta er hin almenna krafa á þinginu, að spara sem mest, og þá helzt með því að fækka embættum. Og þegar svo mikil áherzla er lögð á að skera niður fjárframlög og leggja niður embætti sem nú er gert, þá er ósamræmi í því, að sama þingið stofni til nýrra embætta.

Ég tók það fram við 1. umr., að ég teldi það ekki heppilega braut að stofna mjög lítil læknishéruð. Það er erfitt að fá lækna til að setjast að í litlum læknishéruðum. Og ef læknir fæst í slíkt læknishérað, þá má búast við, að hann verði útundan um þroska, andlega og líkamlega talað. Andlega vegna þess, hve viðfangsefnin verða fá og fábreytt, svo að hann á bágt um að fylgjast með. Líkamlega af því, að slíkt hérað er svo tekjurýrt, að ekki er hægt að lifa af því. Þetta á yfirleitt við um lítil héruð. Læknar forðast og slík héruð yfirleitt.

Ég viðurkenni, að í Ólafsfirði er erfitt að ná í læknishjálp. En Alþingi hefir líka séð þörfina og viðurkennt hana, með því að veita Ólafsfirðingum 2600 kr. til þess að geta tryggt sér læknishjálp. Ég felli mig betur við það fyrirkomulag, að við héldum slíkum háum styrk að svo komnu máli, en létum vera að stofna nýtt embætti.