06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í C-deild Alþingistíðinda. (11333)

95. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Halldór Steinsson:

Það lítur svo út, að mín skoðun hafi ekki mikið fylgi hér í hv. deild, því tveir hv. þm., auk hv. frsm., hafa staðið upp til að andmæla skoðun minni.

Hv. frsm. vildi halda því fram, að hér væri í raun og veru ekki um nýtt embætti að ræða. Ég get ekki skilið, hvernig hann lítur á það mál. Það er svo ljóst, að ekki þarf að því orðum að eyða, að hér er verið að stofna nýtt embætti.

Þá vildi hv. frsm. gera lítið úr þeim kostnaði, sem ríkissjóði væri bakaður með þessu. Hann taldi hann aðeins nokkur hundruð kr. Á hinn bóginn gerði hann mikið úr þeim hægðarauka, er hreppurinn hefði af þessu. Ég held nú, að ef það eru lítil útgjöld fyrir ríkið að setja þarna héraðslækni, þá séu það líka lítil útgjöld fyrir hreppinn að kosta hann. En við getum gert dæmið alveg upp. Nú leggur, ríkið fram 2600 kr., en hreppurinn 1600 kr. Ef sett verður þarna héraðslæknisembætti og í það settur ungur læknir, kostar það ríkið 3000 kr. í fyrstu með dýrtíðaruppbót. En ef embættið væri veitt gömlum lækni með fullri aldursuppbót, þá yrðu launin 4000 kr., eða 1400 kr. meiri en nú. Hv. frsm. taldi, að þótt yfirleitt væri rétt að fækka embættismönnum, þá gæti hann samt ekki gengið inn á að fækka læknum. Ég get gjarnan gengið inn á það. Ég hefi heldur aldrei haldið því fram, að þeim ætti að fækka.

Ég held, að það sé fullmikil fljótfærni að ráða þessu máli til lykta á þessu þingi, a. m. k. fyrr en frv. það um læknaskipun, er liggur nú fyrir Nd., er komið hingað. Í því eru talsverðar breytingar á læknaskipun þarna nyrðra. Meðan ekki er séð fyrir, hvernig um þær breytingar fer, þykir mér ekki rétt að binda skipulag þessara héraða með þessu frv. því vil ég leyfa mér að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Í því trausti, að Ólafsfjarðarbúar njóti eigi lægri styrks úr ríkissjóði til læknishalds en þeir hafa haft í undanförnum fjárlögum, og ríkisstjórnin láti rannsaka, á hvern hátt bezt verði bætt úr læknisþörf hreppsbúa og leggi tillögur sínar fyrir næsta þing, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.