06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í C-deild Alþingistíðinda. (11374)

300. mál, kosning til Alþingis

Flm. (Jón Þorláksson):

Eins og bent hefir verið á í sambandi við umr. um stjórnarskrárbreyt., þá eru ákvæði núgildandi kosningalaga ósamstæð að því leyti, að í tvímenningskjördæmunum velur hver kjósandi 2 þm., en alstaðar annarsstaðar er það í raun og veru svo, að hver kjósandi greiðir einungis einum frambjóðanda atkv. Ef einhver er í vafa um, að þetta sé svo, þá vil ég leiða athygli að því, hvernig fer, þegar svo stendur á, að það er eitt atkv., sem ræður úrslitum hlutfallskosninga, þá ræður það atkv. kosningu eins þm. En standi eins á í tvímenningskjördæmi, þá getur þetta eina atkv. ráðið kosningu tveggja þm.

Það er í sjálfu sér eðlilegast að bæta úr þessu með því að fyrirskipa hlutfallskosningar. En það er ekki hægt undir núgildandi stjórnarskrá. Kosningalögunum verður því fyrst um sinn að breyta á annan hátt, svo að samrímanlegt sé við stjskr. Og að vísu mundi þessi breyt., sem hér er farið fram á, leiða til sömu niðurstöðu og hlutfallskosningar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en af því málið stendur í nánu sambandi við stjórnarskrárbreytinguna og úr því hér er á annað borð starfandi stjórnarskrárnefnd, þá legg ég til, að frv. verði til hennar vísað.