04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (11490)

Stjórnarskipti

fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Um leið og fráfarandi forsrh. baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt benti hann, samkv. ályktun Framsóknarflokksins, á mig til að mynda nýtt ráðuneyti. 28. f. m. barst mér símskeyti hans hátignar konungsins, þar sem hann fól mér að mynda nýtt ráðuneyti. Samkv. því umboði gerði ég fyrst tilraun til að mynda hreina framsóknarstjórn, en mistókst, vegna þess að ekki náðust samningar milli flokkanna um fjármál og stjórnarskrármál á þeim grundvelli. Var síðan gerð tilraun um myndun samsteypustjórnar allra flokka, en fékk ekki undirtektir. Loks bauð ég, samkv. tilmælum Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokknum að taka eitt sæti í stjórn, að því tilskildu, að þá yrðu afgr. sem l. frá Alþ. frv. til fjárlaga og nauðsynlegustu fjáraflafrv. Á þeim grundvelli tókst samkomulag það, er nauðsynlegt var til afgreiðslu helztu þingmála, og gat ég síðastl. fimmtudag símað konungi till. um myndun ráðuneytis, með stuðningi eða hlutleysi flestallra þm. Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Í gær barst mér svo hljóðandi símskeyti frá konunginum:

„Föllumst á tillöguna og skipum hér með yður til að vera forsætisráðherra og fjármalaráðherra, síra Þorstein Briem til að vera atvinnu- og samgöngumalaráðherra og hæstaréttarmálaflutningsmann Magnús Guðmundsson til að vera dóms- og kirkjumálaráðherra.

Christian R.“

Þess skal jafnframt getið, að ráðuneytið mun gera till. til konungs um bráðabirgðabreytingu á skiptingu starfa milli dómsmrh. og atvmrh., og er það mest gert að ósk síra Þorsteins Briems, sem mun taka við kirkju- og kennslumálum, en að öðru leyti er ekki fullráðið um þá breytingu.

Þingheimi er kunnugt um öll rök til þessarar stjórnarmyndunar. Eins og kosningatilhögun og deildaskipun þingsins er háttað, hafa ýms helztu þingmál lent í sjálfheldu. Andstöðuflokkar fyrrv. stj. hafa lagt ríka áherzlu á afgreiðslu stjórnarskrármálsins, og stjórnarflokkurinn jafnríka áherzlu á afgreiðslu helztu fjármála. Um þessi atriði náðust engir samningar. Var þá tvennt til: að stofna til kosninga eða stjórnarskipta með einhverjum þeim hætti, að málalok fengjust. Þótti fráfarandi stj. og stuðningsmönnum hennar ekki ráðlegt að stofna til þingrofs og kosninga, vegna þess að nú eru alvörutímar og meiri þörf samstarfs en sundrungar, enda allar líkur til, að nýjar kosningar mundu ekki veita neina þá lausn úr sjálfheldunni, sem ekki stæði eins í valdi núv. þingmanna. Um skoðun sína á þessu hefir fráfarandi forsrh., sem nú liggur rúmfastur, sent þinginu ávarp í sambandi við lausnarbeiðni sína.

Persónulega hefði ég helzt kosið, að samningar hefðu náðst um afgreiðslu stjórnarskrár og fjármala án stjórnarskipta. En því var ekki að fagna. Það öngþveiti, sem málefni þjóðarinnar hafa komizt í á þessu þingi, liggur ekki eingöngu í þeirri áherzlu, sem þingflokkarnir hafa lagt á mál sin, heldur og í sjálfri stjórnarskipun landsins. Sambland kjördæmakjörs og landkjörs með þeim hætti, sem nú er, og skipun deilda þingsins getur leitt til hins sama öngþveitis hvenær sem er, og heldur tillit fyrir, að sú hætta aukist en að úr henni dragi. Ég lít svo á, að skylt sé að gera þær breyt. á kosningatilhögun og skipun þingdeilda, að sem mest trygging verði fyrir því, að Alþ. verði á hverjum tíma starfhæft, enda verður það ekki hrakið með rökum, að jafna beri kosningarrétt þegnanna frá því, sem nú er. Ég tel mér því skylt sem stjórnarforseti að leggja fyrir næsta þing frv. til l. um breyt. á stjórnskipunarlög um ríkisins, sem feli í sér sanngjarna lausn þessara mála.

Núv. stj. er fyrst og fremst mynduð, ýmist með stuðningi eða hlutleysi mikils meiri hl. þingmanna, til að greiða sem bezt úr þeim örðugleikum, sem umkringja oss á alla vegu. Horfurnar eru svartar. Minnkandi toll- og skatttekjur ríkissjóðs og margháttaðir erfiðleikar atvinnuveg anna til lands og sjávar blasa við þjóðinni, lækkandi verðlag á útflutningsafurðum og hækkandi tollar í þeim löndum, sem ver skiptum við. Hin nýja stj. telur sér skylt að gæta alls þess sparnaðar, sem við verður komið án vansæmdar, og hafa vakandi auga á aðstöðu atvinnuveganna um viðskipti við önnur ríki og gera í því efni allar þær ráðstafanir, sem í hennar, valdi eru, til að hlynna að atvinnuvegunum.

Háttv. alhm. hafa séð það, að á þessum erfiðu tímum má sízt við því að hafa óstarfhæft þing og stjórn, sem lamast af ósamræmi, sem felst í stjórnarskipuninni sjálfri. Illindi auka vandræðin, en samhugur og sameiginleg átök veita þá beztu lausn, sem unnt verður að ná, eftir öllum ástæðum.

Ég vil óska þess, að guð gefi gæfu til, að svo ráðist fram úr erfiðleikum þjóðarinnar og málefnum, sem bezt má verða.