07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

55. mál, ríkisskattanefnd

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég hefi gert grein fyrir því í nál. 298, að ég get ekki fallizt á, að það sé rétt að fara að stofna til þessarar gjaldaaukningar, sem frv. hefir í för með sér, á yfirstandandi krepputíma. Það eru 3 verkefni, sem þetta frv. ætlar ríkisskattanefnd þeirri, sem þar er farið fram á að stofna. Það má telja fyrst, að færa á úrskurðarvald, sem nú er hjá fjmrn. að því er snertir tekju- og eignarskatt og hjá atvmrn. að því er snertir útsvarskærur, í hendur þessarar nýju n. Það hefir að vísu áður verið gert ráð fyrir því í löggjöf, að þetta úrskurðarvald, að því er útsvarsmálin snertir, væri fært í hendur slíkrar n., ef hún yrði stofnuð. En eftir því, sem ég veit bezt, hafa þessir úrskurðir verið fremur fáir í báðum ráðuneytunum. Ég get ekki talið það aðkallandi þörf á krepputíma að setja á stofn svona n. til þess að fá úrskurðarvald flutt úr ráðuneytunum til hennar.

Þá er það næst, að frv. ætlar n. leiðbeiningarstarfsemi fyrir skattan. og yfirskattan. til að samræma framkvæmd laganna um tekju- og eignarskatt. Framkvæmd laganna er nokkuð misjöfn á mismunandi stöðum í landinu. En það eru erfiðleikar á því að samræma framkvæmd þessara laga, og langmest að því er tekur til landbúnaðarins. Og það er af því, að öll löggjöf á svo dæmalaust illa við landbúnaðinn eins og hann er ennþá rekinn hjá okkur. Á þessu sviði væri kannske mest þörf á leiðbeiningum, en um það er að segja, að eins og stendur er þar ekki um neina fjárhæð að ræða fyrir ríkissjóð, því að það getur vitanlega ekki komið tekju- og eignarskattur af landbúnaði svo neinu nemi, a. m. k. ekki þar, sem hann er rekinn í gamla horfinu, með vöruskiptaverzlun aðallega.

Þá er kvartað um það, að nokkur brögð séu að því, að framkvæmd laganna um tekju- og eignarskatt sé ekki eins röggsamleg í kaupstöðum, þar sem það eru skattan., sem fara með þessi mál, eins og hér í Reykjavík, þar sem skattstjóri er með föstu skrifstofuhaldi. Það getur verið, að nokkuð sé hæft í þessu. En ég held, að það mætti til bráðbirgða fá nauðsynlegar umbætur á einfaldari og kostnaðarminni hátt en að setja á stofn þessa n., sem sé að fjmrn. kostaði einhverju til að láta mann fara til þessara staða og tala við skattan., athuga skattaframtöl, útvega upplýsingar og gefa leiðbeiningar. Fjmrn. hefir allt vald, sem þarf í þessu efni, það þarf ekki að setja á stofn nýja ríkisskattan. til að útvega það vald.

Þá er það loks þriðja atriðið, að n. á að hafa vald til að breyta úrskurði skattan. um skattgjöld. Að því er þetta atriði snertir, þá tel ég, að þetta ákvæði í frv. sé mjög óviðeigandi. Eftir 4. gr. frv., næstsíðustu málsgr., getur ríkisskattan. af sjálfsdáðum breytt ályktunum skattan. og yfirskattan., þótt ekki hafi verið kært, en hún skal þó gera aðilum aðvart áður en hún breytir skattgjaldi þeirra. Ég tel alveg óhæfilegt að leggja slíkt vald í hendur ríkisskattan. Til samanburðar skal ég skýra frá því, hvaða skipun er á samskonar málum í Danmörku, þar sem lögin um tekju- og eignarskatt eru í allri tilhögun talsvert svipuð og hjá okkur. Þar er tilsvarandi n., sem heitir landsyfirskattaráð, valin til þess að heimta allar upplýsingar, sem skattan. og yfirskattan. eiga heimtingu á að fá. Hún hefir rétt til að taka til rannsóknar hvert það atriði Viðvíkjandi skattaálagningu, sem henni sýnist, ef skattan. að hennar dómi hafa ekki lagt skattinn rétt á, hvort sem það er af því, að þar hefir vantað upplýsingar, eða af öðrum ástæðum. Þá ber landsyfirskattaráðinu að senda hlutaðeigandi skattan. þær upplýsingar, sem það hefir. En ef skattan. gerir ekki þær breyt., sem landsyfirskattaráðið telur þurfa, þá fyrst hefir landsyfirskattaráðið rétt til að gera breytingar. Menn sjá, að með þessum ákvæðum í dönsku lögunum er skattan. tryggður sá réttur, að gerðum þeirra verður ekki breytt án þess að upplýsingar séu fyrir þær lagðar og þeim þar með gefið tækifæri til að leiðrétta verk sín. Þetta er sjálfsagt, því að með þessu eina móti fá skattan. nauðsynlegt aðhald til að vanda sitt verk. Einnig er réttur gjaldendanna betur tryggður en með þeim ákvæðum, sem í frv. eru, því að gjaldandi á þá aðgang að því að tala við sína skattan. um þær nýju upplýsingar, sem hún kann að hafa fengið, og gefa skýrslur, ef honum þykir þörf. Hér er sem sagt alveg skilyrðislaust vald lagt í hendur ríkisskattan. til þess að gera hverjum manni þann skatt, sem henni þóknast. Ég álít ótækt og langt frá því að vera nægilegt réttaröryggi fyrir gjaldendur landsins að leggja slíkt vald í hendur einnar n., sem gert er með þessari málsgr. Það eru svipuð einkenni á þessu frv. og öðrum frv., sem fram hafa komið á seinustu árum og hafa í fór með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, og það er, að vikið er frá því, sem áður þótti sjálfsagt, að þessi kostnaður væri ákveðinn í lög unum sjálfum. Ég veit ekki, af hverju það er. Það lítur út fyrir, að mönnum þyki ófýsilegt að láta þessa nýju löggjöf hampa sínum aukna tilkostnaði framan í menn. En þetta er orðinn fastur siður. Þó að skipuð sé ný staða, þá er hætt að ákveða, hver launin skuli vera, sem alltaf var gert áður. Í þessu efni fylgir frv. hinni nýju reglu. það stendur í 9. gr., að kostnaður við störf n. skuli greiðast ú ríkissjóði og að hann skuli ákveðinn í fjárl. Ég vil leiða athygli að því, að ef frv. verður samþ. við 2. umr., þá eru til bein fyrirmæli í þingsköpum um það að vísa slíku máli til fjvn. viðvíkjandi fjárhagsatriðinu. En verði frv. vísað til 3. umr., þá geri ég kröfu til þess, að þingsköpum verði fylgt og fjárhagsatriði frv. verði vísað til fjvn. Ég geri þetta til þess, að hægt sé að leggja fyrir d. við síðustu umr. málsins till. frá fjvn. um það, hver launagreiðsla samkv. frv. skuli vera, ef það verður að lögum. En aðaltill. mín er sú, sem skráð er á þskj. 298, að málinu verði vísað frá að þessu sinni og stutt verði að því, að fjmrn. veiti nauðsynlegar leiðbeiningar til að samræma framkvæmd laganna um tekju- og eignarskatt án tilfinnanlegs aukakostnaðar fyrir ríkissjóð.