05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

1. mál, fjárlög 1933

Ingvar Pálmason:

ég á tvær brtt. að þessu sinni, báðar við 22. gr. frv. Miða þær báðar að því, að Alþ. veiti stuðning til að bæta afkomu þeirra, er sjávarútgerð stunda á Austfjörðum.

Fyrri till. er um það, að þingið veiti ríkisstj. heimild til að ábyrgjast allt að 40 þús. kr. lán, vegna tekjuhalla af tilraunum til útflutnings á kældum fiski 1931. — Það er ástæða til að skýra þetta dálítið nánar, því í raun og veru er hér ekki um tekjuhalla að ræða, heldur hitt, að sambandsfélög útgerðarm. á Austfjörðum, sem fyrir þessum útflutningi stóðu, hafa fengið eignir fyrir andvirði fiskjarins, sem ekki er hægt að fá breytt í peninga.

Málið er svo vaxið, að þegar um það samdist, að stj. leigði 2 skip til að flytja ísfisk frá Austfjörðum, þá fékk fjöldi fiskimanna hug á að afla þeirrar teg. fiskjar, er verðmætust er, kolans. Olli þar nokkru um, að árið 1930 höfðu kolaveiðar verið stundaðar fyrir Austfjörðum af fáum bátum og gefizt vel. Til að geta stundað kolaveiðar þurfti sérstök veiðarfæri, en ekki var hægt að fá lán í hönkum til kaupa á þeim. En svo stóð á, að maður sá, er annaðist sölu fiskjarins í Englandi, bauðst til að lána veiðarfærin gegn því, að þau væru greidd af andvirði fiskjarins. Um þetta var samið með símskeytum og kom upp á eftir misskilningur um greiðslumátann. Stj. sambandsins skildi það svo, að veiðarfærin ættu að greiðast af 15% af þeim afla, sem í þau veiddust og keyptu þau í þeirri trú. En þetta reyndist á annan veg. Það kom í ljós, að þau áttu að greiðast með andvirði fiskjarins, áður en nokkuð var af því greitt annað en flutningskostnaður. Nú kostuðu veiðarfærin alls um 70 þús. kr., og þegar þessi misskilningur kom í ljós, leiddi það til þess, að nokkrir þeirra, sem pantað höfðu tækin, vildu ekki taka við þeim. Þó voru ekki mikil brögð að því; það munu hafa verið 4–5 nætur, sem ekki voru teknar.

Í annan máta fór flutningur fiskjarins fram í kössum, og fékk sambandið 10 þús. kassa frá sölumanni sínum í Englandi. þessi tala kassanna var miðuð við það, að ferðir yrðu greiðar og því þyrfti að hafa tvær „setningar“ af kössum. Auk þess var búizt við, að þeir mundu endast nokkru lakar en raun varð á. Þessir kassar kostuðu um 30 þús. kr. Nú er það svo, að um 4 þús. kassar eru enn ósnertir og ósamsettir eins og þeir komu, því vegna aflatregðu, sem var mikil fyrir Austurlandi, kom aldrei til þess, að þeir væru allir notaðir. Auk þess á sambandið 4 þús. notaða, en nothæfa kassa, því reynsla fékkst fyrir því, að þeir endast a. m. k. 5–6 ferðir. Fisksölusambandið varð nú að standa skil á þessum kaupum, sem gerð voru í upphafi. Þar við bættist svo fiskitregða, svo flutningsskipin fóru hálfu færri ferðir en til var ætlazt í upphafi. Sambandið gat að vísu. staðið, við skuldbindingar sínar erlendis, en það gat ekkert greitt fiskimönnunum nema veiðarfærin. Þegar svo fór, þá sá sambandið sér þann kost nauðugan að taka veiðarfærin í sína varðveizlu, og varð það að samkomulagi. Með því móti, að sambandið fái 40 þús. kr. lán, sem reikna má að sú sem næst hálfvirði eigna þess í veiðarfærum og kössum, þá verður hægt að greiða þeim, er lagt hafa fiskinn inn, nokkurn hluta andvirðisins; 5–6 aura á kg. að ég ætla.

Nú er þess að gæta, að þeir, er mestan fiskinn lögðu inn, voru þeir, sem ekki fengu veiðarfærin, því kolaveiðarnar brugðust, og veiðarfærakaupin urðu því harmabrauð. Mér er tjáð, að ein ástæðan til þess að veiðin brást hafi verið sú, að á miðin sótti svo mikill fjöldi skipa, að þau urðu uppurin á skömmu bragði.

Búizt get ég við því, að menn dragi þá ályktun af þessari tilraun, að ekki sé álitlegt að halda áfram slíkum sölutilraunum. En ég hygg þvert á móti, að reynslan hafi sýnt, að sé hyggilega að farið, geti rétta orðið líklegt til sæmilegrar afkomu, ef það er þá ekki einmitt hið eina bjargráð Austfjarða að flytja út kældan fisk síðari hl. sumars. Reynslan varð sú, að fiskurinn líkaði vel og seldist vel. En hinu er ekki að neita, að eftir á má sjá ýms mistök á þessari tilraun. Svo er með flestar tilraunir. Í byrjun fylgja þeim ýmsir barnasjúkdómar, sem með reynslunni er hægt að fyrirbyggja.

Ég vil því vænta þess, að hv. d. ljái þessari till. fylgi. Hættan af ábyrgðinni virðist ekki þurfa að vera svo mjög mikill. En þannig stendur málið nú, bankarnir lana nú ekki gegn öðrum tryggingum en þeim, sem umsetja má í peninga á árinu. Það er kunnugt, að bankarnir hafa tekið upp þá reglu, og hún er eðlileg. Hinsvegar má fullyrða, að lanið fæst, ef ríkisábyrgð er fyrir því. En það veltur á miklu, að sambandið fái nokkuð af handbæru fé til að greiða eitthvað upp í andvirði aflans, því hætt er við, ef ekkert fæst greitt, að menn fái lakari trú á að halda þessum tilraunum áfram.

Þá verð ég að fara nokkrum orðum um b-lið till. minnar. Hún fer fram á að heimila ríkisstj. að leggja fram 200 þús. kr. til að reisa síldarbræðslustöð á Austurlandi.

Að þessi till. er flutt bæði í Nd. og Ed. stafar af því, að nú á þessum nýliðna vetri kom það fyrir, að ausa mátti síldinni upp fyrir Austfjörðum allt frá nóv.byrjun og til þessa tíma. En þótt firðirnir væru svo fullir af síld, að það mætti heita, að það væri eyðilegging á veiðarfærum að leggja þau í sjó, þ varð þetta þó að sáralitlum notum. Um 5000 tunnur munu hafa verið saltaðar. og ég hygg, að nokkur hl. þeirra sé ennþá óseldur. þó er þetta svonefnd millisíld, sem salan er talin að vera einna öruggust á.

Nú er það svo, að Austfirðingar eiga ákaflega erfitt með að skilja það, að ómögulegt sé að reisa bræðslustöð á Austfjörðum, þar sem síldina er hægt að veiða á mjög auðeldan hátt, og með litlum tilkostnaði nema vinnu, en hinsvegar eru margar stöðvar starfandi eða hafa verið á Norðurlandi, þar sem síldveiðin er aðeins stunduð á sumrum og með alldýrum skipum.

Enn er það ein stoð, sem rennur undir þetta mál. Í Neskaupstað hefir undanfarið starfað fiskimjölsverksmiðja, sem útlendir menn hafa átt. Á síðastl. hausti buðust bænum kaup á henni. Að vísu hafði bænum boðizt hún áður, en þá átti hún að kosta 250 þús. kr. Nú í vetur var tilboðið komið niður í 100 þús. kr. og því afréð bærinn að kaupa hana. Hér í hv. d. á sæti einn maður, sem máli þessu er kunnugur, og ég þori óhikað að skjóta þessu undir hans dóm, hvort kaupin hafi verið hagstæð bænum, ef á annað borð verður hægt að reka verksmiðjuna. Ég skal geta þess, að auk verksmiðjunnar og húsa hennar fylgdu með í kaupunum íbúðarhús, virt á 15 þús. kr., 30 tn. vélbátur tryggður fyrir 30 þús. kr. og lítill vélbátur, sem mun hæfilega metinn á 2000 kr. Það má því sjá, að verksmiðjan sjálf var ekki sérlega dýr. Nú hefir bæjarstj. látið rannsaka, hvað mundi kosta að bæta við verksmiðjuna nauðsynlegum áhöldum, sem til þess þarf, að hún geti líka unnið að síld. Mér er tjáð, að sú rannsókn hafi leitt í ljós — ég hefi ekki niðurstöðutölurnar í höndum, — að slíkar vélar og áhöld og viðbótarbygging mundi kosta um 150 þús. kr. En þá ætti hún að geta tekið á noti 1000 málum síldar á sólarhring. Þó ég hafi minnzt á þetta, vil ég ekki miða till. mína við það, að ríkissj. leggi fram fé til að koma upp síldarbræðslu í sambandi við þessa verksmiðju, þó ég af ýmsum ástæðum teldi það heppilegustu lausn þessa máls. Ég fer aðeins fram á, að ábyrgðin sé veitt til að reisa síldarbræðslu einhversstaðar á Austurlandi, en læt það komið undir því, hvar rannsókn leiddi í ljós, að heppilegast væri að hafa hana. Sjálfur er ég ekki í vafa um, að tiltækilegast er að reisa hana þarna.

Eitt af því, sem líklegast er til að bæta hag Austurlands, er síldarbraeðsla. Það er hörmulegt, þegar fjöldi fólks gengur iðjulaus og bjargarlítill, en firðirnir fullir af síld, að geta að engu notfært sér það, þótt það megi ná henni með litlum kostnaði. En svo hefir alltaf verið, að síldin hefir veiðzt innfjarða á Austurlandi.

Ég get svo látið útrætt um þessa till. og vil treysta því, að jafnvel þótt hv. þdm. sjái sér ekki fært að samþ. hana, þá hafi þeir samt opin augun fyrir því, að eitthvað þarf að gera til að rétta hlut Autstfirðinga.

Áður en ég sezt niður, tel ég rétt að leiðrétta missögn, sem hv. 2. landsk. fór með, þegar hann var að mæla fyrir till. sinni um Fjarðarheiðarveg. Hann lét þá svo um mælt, að svo væri ástatt hjá Austfirðingum, að bátar þeirra væru manndrápsbollar. Ég skal sízt draga úr þeim erfiðleikum, sem nú ríkja á Austurlandi, en ég tel vafamál, hvort rétt sé að fara út í slíkar ofgar í lýsingum þaðan. Ég skal játa það, að floti Seyðfirðinga mun hafa gengið úr sér á síðustu árum. En þó er þess gætandi, að einhver fleyta mun vera þar, sem hann ekki telur manndrápsbolla, því mér er kunnugt um, að Útvegsbankinn hefir haft á boðstólum þar 2 báta í vetur, og þess vænti ég, að hann hafi ekki á boðstólum slíka vöru. Á Mjóafirði eru 2 vélbátar; þeir eru báðir nýuppbyggðir og með nýjum vélum. Af 27 bátum á Norðfirði, sem stærri eru en 8 smál., eru 7 byggðir og keyptir á síðustu 3 árunum. þessir bátar hafa kostað allmikið fé, að því er ég bezt veit hátt á annað hundrað þús. kr. En auk þessa hafa verið keyptar nýjar vélar síðustu árin fyrir um 50 þús. kr. Þessi ummæli hv. 2. landsk. eru því ekki rétt og með öllu ómakleg hvað Norðfjörð snertir. Á Eskifirði og Reyðarfirði mun vera minna um nýja báta. Þó veit ég til, að þar eru tveir nýsmíðaðir bátar. Ég taldi ekki rétt að láta þessa fullyrðingu hv. þm. standa án þess að henni væri mótmælt. Að því er Norðfjörð snertir, þá hefir útvegurinn einmitt ekki þolað það, að flotinn væri endurnýjaður, þó að framtíðin hinsvegar krefjist þess.

Hv. 2. landsk. skaut því fram, að það ætti yfirleitt við bátana á Austfjörðum að þeir væru gamlir og lélegir, að undanteknum einum, sem nýkeyptur væri þangað og Útvegsbankinn hefði haft milligöngu með. Það er rétt, að þessi bátur var keyptur. En hann er ekki eini báturinn, sem er nýr. Ég vildi leiðrétta þetta, því þó ég kannist við, að ástæðurnar séu erfiðar, þá er þó ekki ástæða til að vera að mála fjandann á vegginn gagnvart hv. þdm. Ég hygg, að Austfirðir standi ekki mjög að baki öðrum landshlutum að því er dugnað og framtak snertir og að þeir muni, er í ári batnar, ná sér aftur og leggja þá sem áður drjúgan hluta í ríkissjóðinn; hefir löngum svo verið á undanförnum tímum.

Ég bið svo hv. þdm. velvirðingar á þessum útúrdúr, sem var gerður að gefnu tilefni.