05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

1. mál, fjárlög 1933

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég á hér brtt. á þskj. 637, sem ég vildi segja um nokkur orð. Svo er mál með vexti, að á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd hefir um 30 ára skeið verið prestur, sem heitir Einar Thorlacius. Hann er nú orðinn gamall maður. Fyrir 2 árum var sjón hans farið að hnigna svo, að ekki var líklegt, að hann geti haldið áfram prestsskap. Hann fluttist þá til Rvíkur og lagði stund á að bæta sjón sína, og það tókst, svo hann hefir nú tiltölulega góða sjón á við það; sem áður var. Hann fékk í staðinn fyrir sig ungan prest, sem þjónaði brauðinu á hans ábyrgð. Eins og málinu var háttað, þó ekki hefðu beinlínis verið gerðir samningar, þá gekk ungi presturinn út frá því, að gamli maðurinn væri endanlega farinn og hann hefði miklu möguleika til að verða hans eftirmaður, þar sem sóknarfólkinu féll vel við hann. Og ég þykist vita, að gamli presturinn hafi tæplega búizt við, að hann mundi verða svo hraustur, að hann gæti komið aftur. En þetta breytist svo, að hann náði tiltöulega góðri sjón og frá því sjónarmiði var ekkert því til fyrirstöðu, að hann stundaði prestskapinn lengur. En þegar að því kom, að síra Einar tilkynnti aðstoðarprestinum, að hann mundi taka brauðið aftur, þá kviknaði talsverð óánægja hjá söfnuðinum, sem hefir vaxið eftir því sem lengra leið, af því að söfnuðurinn vildi ekki missa unga prestinn.

Hafði þá jafnvel komið til orða, að sóknarbörnin stofnuðu fríkirkju, einkanlega ef þeir gætu haldið hinum vinsæla unga presti. — Það hafa einstöku sóknarbörn stungið upp á því við kirkjumálastj., hvort ekki væri ástæða til að hún fengi síra Einar til að hætta við þetta áform sitt, þar sem yfirgnæfandi meiri hl. safnaðarins vildi í raun og veru skipta. Að því leyti sem þetta hefir komið til mín þá hefi ég sagt við þessa menn ég vil ekki segja, að það hafi verið beinlínis fulltrúar als safnaðarins, en leiðandi menn úr prestakallinu — að ekki væri hægt lögum samkv. að segja gamla prestinum að hætta, jafnvel þó að söfnuðurinn óskaði eftir skiptum. Gamli presturinn hefir lagaréttinn með sér, og ekki er hægt, þó mikill meiri hl. safnaðarins óski eftir öðrum presti, að hindra hann frá að taka aftur við sínu prestakalli. Aftur á móti er ekki hægt að neita því, að söfnuðurinn hefir líka sinn rétt. Mætti kannske orða þetta þannig, að gamli presturinn hefði lagaréttinn, en ungi presturinn og söfnuðurinn siðferðislega réttinn. Nú hefir mér fundizt það vera ómaksins vert að spyrja þingið, hvort það vilji ekki reyna með lagi að hjálpa til að jafna þessa deilu á þann hátt, að báðir aðiljar mættu vel við una. Mér hefir þótt það vel til fallið að gera síra Einari kleift að vinna að verki, sem hann hefir nú í fleiri ár unnið að sem sé fjársöfnun til nýrrar þjóðlegrar Hallgrímskirkju í Saurbæ. Ég hefi þess vegna lagt til, að stj. verði heimilað að veita síra Einari þessa þóknun, ef hann léti af prestskap í vor. Ég hefi borið fram þessa till. í því skyni að koma á meiri ánægju milli hlutaðeiganda.

Þá hefir komið fram önnur till., sem ég vildi minnast á, um að ávísa til 2ja námsmanna af því fé, sem menntamálaráðið á að skipta. Ég veit, að þetta er gert út úr vandræðum af þeim, sem leggja þetta til. Þeir vilja hjálpa þessum mönnum, en ekki auka framlag þingsins. annan þessara manna þekki ég sjálfur að góðu, og hann hefir verið styrktur af menntamalaráðinu undanfarin ár. Ég vil vara hv. þd. við því, að þetta er ekki heppilegt, því það, sem vakir fyrir þinginu, er að reyna að losna við atkvr. um styrki til óþekktra manna, en fela það heldur nefnd, sem hefir á þessu meiri kunnugleika. Ef þessi till. er samþ., að ávísa af fé menntamálaráðs, þá er búið að brjóta það fyrirkomulag, sem nú er og horfir til bóta.