06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

490. mál, Jöfnunarsjóður

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég get yfirleitt fallizt á þetta frv. og aths. hv. þm. V.-Húnv. við 2. og 1. gr. Af því að hér er ekki gert ráð fyrir því, að fé ríkisins standi allt í rekstri ríkisins sjálfs, óska ég þess, að málið verði tekið af dagskrá nú, svo að ég geti komið að brtt. Það er ótækt, að ríkið geti ekki haft allt fé sitt í rekstri. Ég skal ekki segja, hvað ríkissjóður þarf að vera stór til þess að þurfa ekki að taka lán til þess að fleyta sér yfir áramót, en ég held, að það megi tæplega vera minna en 3 millj. kr. Ég held, að það yrði enginn sparnaður að láta jöfnunarsjóð standa í banka kannske með lágum vöxtum, en taka svo dýr lán til rekstrar ríkisins. Frv. verður að breyta svo, að jöfnunarsjóður geti að einhverju marki staðið í ríkisrekstrinum. Ég vona, að hæstv. forseti verði við bón minni um að taka málið af dagskrá.