27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1637 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, klofnaði n. um málið. Minni hl. n. leggur til, að lögin um flugmalasjóð verði afnumin og frv. samþ. óbreytt.

Það má ef til vill segja, að nauðsyn hafi verið á því að afla flugfélaginu tekna í byrjun, en sú nauðsyn er a. m. k. ekki lengur fyrir hendi, eftir að félagið er orðið gjaldþrota og hætt að starfa.

Ég vil í þessu sambandi til samanburðar benda á annað félag, sem stofnað hefir verið hér á landi til að annast samgöngur. Þetta félag er Eimskipafélag Íslands. Það var stofnað af þjóðhagslegri nauðsyn, til þess að koma í veg fyrir, að erlendir menn okruðu á vöruflutningi frá og að landinu, og jafnframt til þess, að landsmenn gætu sjálfir ráðið tilhögun flutninganna í sambandi við eðlilega framþróun atvinnu- og viðskiptalífs hér á landi. Þetta félag átti mikinn þátt í því, að sjálfstæðismál vor fengu svo skjóta lausn. Það var því að þakka að verulegu leyti, að við fengum siglingafánann, og það var því að þakka, að við gátum verið sjálfum okkur nógir um siglingar á stríðsárunum. En þetta tvennt voru einna þyngstu lóðin á vogarskál okkar Íslendinga, þegar við gengum til samninga við Dani 1918. Þetta félag var stofnað af fjárhagslegri nauðsyn, sem allri þjóðinni var auðsæ, enda lagði mikill hluti þjóðarinnar fé fram til stofnunar þess. Hin sama nauðsyn er enn fyrir hendi, og þess vegna hafa menn tekið því með ró, þótt þeir hafi tímunum saman enga vexti fengið af fé sínu. Og það er þessi sama nauðsyn, sem mun halda landsmönnum saman í þéttri fylkingu um þetta félag.

En lítum svo á flugfélagið. Var það stofnað vegna nauðsynjar landsmanna? Skipti það svo miklu máli, hvort einstaka bréf eða einstaka farþegi komst 2 dögum fyrr á ákvörðunarstað en ella kynni að hafa orðið? Nei, hér var ekki um neina þörf eða nauðsyn að ræða. Til flugferðanna var eingöngu stofnað til að svala sport- og skemmtanalöngun þjóðarinnar, að sínu leyti eins og leikhús og kvikmyndahús. Vélar þær, er keyptar voru, höfðu aðeins 1 hreyfil, og voru því óhæfar til annars eða meira en snatt- og skemmtiflugs í góðu veðri.

Því var að vísu haldið fram, þegar félagið var stofnað, að þessar flugvélar gætu annazt fólksflutninga í hvaða veðri sem væri og í hvaða árstíð sem væri. Meira að segja var slegið á þá strengi, að flugvélarnar myndu geta komið að haldi, þegar hafís, innlyki Norðurland. Reynslan hefir orðið önnur. Á þessum tyllingum byggðist það, að hægt var að ginna út úr einstaklingum, bæjar- og sveitarfélögum stórar fjárhæðir til þessa fyrirtækis, og með hinum sömu röngu forsendum var hægt að fá þm. til þess að samþ., að ríkið legði fram stórfé, og loks var á svipuðum grundvell samþ., að einn atvinnuvegur landsmanna skyldi skattlagður til stuðnings flugferðunum, fáeinum mönnum til skemmtunar. Það var gert ráð fyrir því, þegar flugskatturinn var samþ., að svokallað síldarflug gæti orðið til mikilla hagsbóta fyrir síldarútveginn. Þetta hefir alveg brugðizt. Því hefir verið haldið fram, að Ísland hafi orðið fyrst til þess að nota flugvélar við síldarleit. má vera, að svo sé, en það er þó vafasamt. Norðmenn hafa einnig undanfarið notað flugvélar til síldarleitar, en ekki látið síldarútveg sinn kosta þær. heldur hafa það verið flugvélar frá flotanum, sem ókeypis hafa flogið síldarflug. En út af slysi, sem varð í slíkri leit í sumar, lýstu norskir síldveiðimenn yfir því, að þeir teldu sér þetta síldarflug algerlega gagnslaust. Sama reynslan hefir fengizt hér heima. Að vísu mun einn íslenzkur skipstjóri hafa haldið því fram, að hann hafi í eitt sinn haft nokkurt gagn af slíku flugi, og hefir hann jafnan verið því fylgjandi síðan, og haldið því fram, að það mætti að gagni koma. En ég efast um, að nokkur annar skipstjóri finnist, sem við síldveiðar hefir fengizt, er telji síldarflugið vera til nokkurs gagns. Nú má benda á, hvernig þessi síldarleit hefir verið framkvæmd. Samkv. l. um flugmalasjóð var það skilyrði fyrir því, að gjald þetta yrði innheimt, að haldið yrði uppi flugferðum í 3 mánuði. Þetta hefir ekki verið gert. Sumarið 1931 var mjög góð veðrátta yfirleitt, en þó eigi flogið nema tvo mánuði. Samkv. skýrslu, sem hefir verið gefin út um þetta og útbýtt hér í d., var ekki hægt að fljúga nema einar 43 ferðir í þessa ca. 2 mánuði, sem flugan er talin að hafa verið við síldarflugið. Þrátt fyrir hið góða veður var ekki hægt að fljúga oftar. það reyndist svo, að ekki var þorandi að fljúga í golu, þegar ekki var hægt að setjast á sjóinn; í dimmviðri og þoku var heldur ekki hægt að fljúga, það var aðeins hægt í logni og björtu veðri. Af þessum 43 ferðum hafa, að því er maður sagði mér, sem hefir séð þessa skýrslu flugfélagsins, 2/3 verið farþegaflug. M. ö. o. að t. d. öll flug milli Akureyrar og Siglufjarðar með farþega — og þau voru mörg —voru talin síldarflug. Flugvélin hefir farið flug með farþega og póst frá Rvík til Akureyrar, og hin fer mjög oft með farþega og póst milli Akureyrar og Siglufjarðar, og allar þessar ferðir eru heimfærðar undir síldarflug, þótt engan varði um síld inni í Eyjafirði, þar sem skipin eru stöðugt á ferð. Þegar þessa er gætt, er það augljóst, að síldarflugið hefir verið æði takmarkað, sennilega ekki farnar nema ca. 16 ferðir og um 10 þeirra hefir skýrsla verið gefin.

Ég vil biðja menn að athuga í skýrslu þeirri, sem útbýtt var hér í deildinni í þingbyrjun, hvernig reynt er á allan hátt að sýna fram á, að ferðirnar hafi komið að gagni. Oftast er það orðað svo, að flugan hafi flogið þetta og þetta og séð síldartorfu. En hún sá venjulega meira. Hún sá fjölda skipa vera að veiða síldina. Ég skil ekki þann hag, sem skipin geta haft af því, að flugvélin fljúgi yfir þar sem þau eru að veiða. Það var að vísu í eitt sinn, er flugvélin flaug vestur á Húnaflóa, að hún sá síld, sem aðrir virtust ekki vita um, eða kæra sig um, því að þá var nóg síld fyrir Norðurlandi. En þetta varð til þess, að nokkrir bátar frá Ísafirði tóku sig upp frá Siglufirði og fóru vestur, ekki vegna vöntunar á síld, heldur vegna „hinnar afarseinu afgreiðslu síldarverksmiðjunnar á Siglufirði“, eins og það er orðað í skýrslunni. Þarna kemst formaður flugfélagsins, sem ritar þennan pésa, í hrifningu yfir hinu mikla gagni í þessari flugferð. Til þess að geta gert kröfu til flugskattsins þurfti flugfélagið samkv. lögum að halda uppi stöðugu síldarflugi í 3 mánuði. Í þess stað eru aðeins farnar ca. 16 ferðir, eftir því sem næst verður komizt, án þess að séð verði, að þær hafi orðið að nokkru gagni, nema e. t. v. í þetta eina sinn, ekki af því, að síld vantaði, heldur sáu nokkur skip sér hag í því af öðrum ástæðum að skipta um stað. Gagnsleysi flugsins var fyrirfram vitað. En hitt er næsta athyglisvert, að flugfélagið skyldi geta fengið flugskattinn innneimtan og greiddan sér, þó að það svikist um að uppfylla sett lagaskilyrði.

Ég efast ekkert um, að þegar l. um flugmalasjóð voru samþ. hér á Alþ., hafa margir þm. litið svo á, að þetta myndi koma síldarútveginum að miklu liði. En þegar sýnt er fram á, að svo er ekki, þá er næsta merkilegt, að nokkrum manni skuli detta í hug að vilja halda áfram að skattleggja þennan sérstaka atvinnuveg, sem hefir ekkert annað gagn af því en að nokkrir þeirra manna, sem hann stunda, þurfa mikið að ferðast að sumrinu og kynnu e. t. v. að telja sér meiri hag í því en aðrir að geta verið fljótir í förum staða á milli. Það væri eitthvað svipað, ef suðurlandsundirlendið, — Árnes- og Rangarvallasýsla —, sem hefir engar hafnir og af þeim ástæðum þarf að nota vegi meira en aðrir, yrði að bera allt vegaviðhald á landinu. Það er alveg hliðstætt því, að menn vilja leggja á eina atvinnugrein að halda uppi flugferðum fyrir alla þjóðina. Hv. frsm. meiri hl. minntist á það, að flugfélagið væri búið að kosta miklu fé til. Það er rétt. En hvaðan hefir það fé komið? ég hefi minnzt á það, að ginnt hefir verið fé út úr einstaklingum, sveitar- og bæjarfélögum, og sömuleiðis hefir verið kríað fé út úr ríkissjóði, og í byrjun ársins 1931, þegar stjórn flugfélagsins hlýtur að hafa seð, að fjárhagurinn var að verða svo þröngur, að horfði við gjaldþroti, hefir hún úr ríkissjóði 70 þús. kr. styrk, sem veittur var fél. í þess ár fjárl., sumpart sem beinn styrkur, sumpart til hlutafjárkaupa. Jafnframt myndast félagið við að halda uppi síldarflugi, að nafninu til 2/3 þess tíma, sem tilskilið er í flugmálasjóðslögunum, og gengur síðan eftir flugskattinum fyrir það ár. Og loks heldur stjórn flugfélagsins áfram að taka á móti fjárframlögum eða hlutafé frá einstökum héruðum, þangað til félagið varð að lýsa sig gjaldþrota. Mér er kunnugt um, að Eyjafjarðarsýsla sendi sitt tillag eitthvað viku áður en fregnir komu um, að félagið væri að verða gjaldþrota. Má segja, að félagið hafi verið duglegt að afla sér fjár og ekki sparað „agitationir“ í því skyni. Ég minnist þess, að í sumar sem leið, þegar flutt var hér í d. frv., sem gekk í þá átt að lækka flugskattinn um helming, þá sá ég varla þm. svo á götu hér í bænum, að formaður flugfélagsins væri ekki að tala við hann eða á harðahlaupum á eftir honum, sennilega til þess að mótmæla þessu hróplega ranglæti. Þetta sýnir, hversu kappsamlega var róið á þingmönnum til þess að fá samþ. fjárframlög til þessa félags. Ég vil ekki út af fyrir sig fordæma eða telja flugferðir óalandi og óferjandi, en ég vil, að menn geri sér það ljóst, að flugferðum þýðir ekki að reyna að koma hér á, nema með sterkari flugvélum en hingað til hafa verið notaðar hér. Til þessa þarf flugvélar með tveimur eða fleiri hreyflum. Ég get ekki skilið, þegar þetta félag er komið á höfuðið og búið að leika þá, sem lagt hafa fram féð, svo grátt, og félagið sem sagt hefir brugðizt öllum þeim vonum, sem menn voru tældir til að gera sér um það við stofnun þess, að nokkur þm. skuli dirfast að halda því fram, að rétt sé að halda flugskattinum á síldarútveginum óbreyttum. Og jafnvel þótt einhverjir samningar standi yfir um að halda fluginu áfram í einhverri mynd, þá finnst mér meira en lítil frekja að bjóða upp á, að það skuli gert með þeim skilyrðum að halda óbreyttum flugskatti á einni atvinnugrein landsmanna. Ég get alls ekki þakkað félaginu, sem nefnt hefir verið í þessari hv. d. sem samningsaðili, þótt að bíti á slíkt. Það má eitthvað gera fyrir 50 –70 þús. kr. á ári, ef síldarfluginu er haldið allan tímann. En síldarútvegurinn er nú af mörgum ástæðum að komast í kaldakol, ekki sízt vegna einkasölunnar frægu, og finnst mér því til fullmikils mælzt að ætla honum að halda uppi þessari skemmtistofnun landsmanna, því að annað hefir félagið ekki verið hingað til.

Að vísu má segja, að verði síldarfluginu ekki haldið uppi, sé heldur ekki hægt að krefjast skattsins samkv. lögum. En samt hefir það verið gert án þess að fullnægt hafi verið þeim ákveðnu skilyrðum. Fluginu var síðastl. sumar aðeins haldið uppi í 2 man. af þrem, sem tilskilið er. Geta menn því jafnvel bitizt við, að þótt ekkert síldarflug verði, þá verði flugskatturinn innheimtur eftir sem áður. Auðvitað biður enginn um síldarflug, því að það er alveg gagnslaust, og jafnvel þótt eigi næðist að afnema flugskattinn, og halda átti uppi einhverju kakflugi (síldarflugi), myndi engum síldarútvegsmanni detta í hug að óska eftir þessu gagnslausa flugi.

Þá er enn eitt atriði í þessu sambandi. Það hefir verið talið, að flugvélarnar gætu komið að nokkru gagni hvað strandvarnir snertir, og mætti líta svo á, að rétt væri, að síldarútvegurinn bæri einhvern hluta af þeim kostnaði. Einnig þetta er rangt. Á sumrin, meðan björt er nótt og allt fullt af skipum við Norðurland, er það hrein undantekning, ef svo ber við, að útl. skip fara í landhelgi til að veiða þar. En þegar þokur koma, þá fara þau frekar inn fyrir, ef þau telja sér það hag, en þá kemst flugvélin ekki úr höfn. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að þetta frv. verði fellt. Ég get ekki skilið, þótt flestir hinir sömu þm., sem samþ. flugskattinn, eigi nú sæti á Alþingi, að þeir geti nú, að fenginni reynslu um gagnsleysi síldarflugsins, fengið sig til að greiða atkv. á móti afnámi hans. Því að vitanlega byggðist samþykkt hans upprunalega á þeim röngu forsendum, að hann mundi verða síldarútveginum að miklu gagni. Þótt meiri hl. sjútvn. hafi af sérstökum ástæðum talið óheppilegt að gera þessu gjaldþrota félagi ómögulegt að reisa sig við aftur með því að afnema flugskattinn, þá er þess að gæta, að engar minnstu líkur — hvað þá sannanir eru fyrir því, að samningar takist við hið erlenda félag. Ég leyfi mér beinlínis að skora á hv. þm. að athuga, hvað það hefir í för með sér að ganga inn á þá braut, að skattleggja eina sérstaka atvinnugrein landsmanna eins og gert er með flugskattinum, alveg að nauðsynjalausu. Sú stefna hlyti að verða afar óvinsæl og beinlínis hættuleg. Og ég tel mér óhætt að lýsa því yfir fyrir hönd þeirra Norðlendinga, er hér eiga sérstaklega hlut að máli, að verði flugskatturinn ekki numinn úr lögum, en innheimtur þrátt fyrir yfirlýsingar þeirra um, að þeir æski ekki flugsins, þá munu þeir af alefli vinna á móti því, að það flugfélag, sem síldarfluginu heldur uppi á þeirra kostnað, en í fullkominni óþökk, geti þrifizt, a. m. k. hvað flug á Norðurlandi snertir.

Ég ætla að svo stöddu ekki að hafa orð mín fleiri, en geri ráð fyrir að þurfa síðar að bæta nokkrum orðum við, eftir að aðrir hafa tekið til máls.