27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég finn það, að mótstöðumenn dagskrártill. meiri hl. sjútvn. vilja halda hér áfram persónulegu hnútukasti í þd., en hv. þm. Borgf. leiddi þó fyrst asnann inn í herbúðirnar, þar sem hann var að gefa í skyn, að ég hefði gert ameríska flugfélaginu tilboð um, að flugmálaskatturinn skyldi haldast óbreyttur framvegis. Þetta var svo meinfýsileg aðdróttun, að ég vildi ekki sýna henni þá viðhöfn að svara henni áðan í ræðu minni. Það er vitað og víst, að formaður Flugfél. Íslands gaf vestræna flugfélaginu skýrslu um horfur flugferða hérlendis og lagasetningu þeirra vegna, eins og hann líka skýrði málið fyrir fulltrúa félagsins hér, Guðm. Grímssyni. Er engin ástæða til að vekja tortryggni gegn þeim, sem reynt hafa þannig að styðja að framhaldi flugferða hér á landi. En upplýsingar þær, sem hér hafa legið fyrir um þessi vestrænu tilboð, eru allar fengnar frá Guðmundi Grímssyni, sem af áhuga fyrir málinu vildi styðja að samningum við innlenda flugfélagið og framhaldi flugferða um landið.