19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

35. mál, lækningaleyfi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. G.-K. fór nokkuð út fyrir efnið í síðustu ræðu sinni og þótti vel við eigandi að draga gamalt „hjú“ sitt, Helga Tómasson, inn í þessar umr. Ég vil benda þm. á, að það er vitað og viðurkennt bæði innanlands og utan, að H. T. var sendur af hv. þm. G.-K. og hans flokki eins og flugumaður til mín. Og þótti Íhaldsflokknum sérstaklega nauðsynlegt að grípa tækifærið til þess, rétt áður en gera átti út um örlög Íslandsbanka, til þess að þjóðin yrði sem lengst dulin þess, að bankinn var þá búinn að tapa 18–20 millj. kr. af sínu veltufé, og til þess að Íhaldið gæti haldið áfram að sukka með fé landsins og lánstraust gegnum þennan banka. Þess vegna þótti Íhaldinu þægilegra að losna við mig áður en Íslandsbankamálið yrði útkljáð. En læknirinn, sem gerðist pólitískur flugumaður Íhaldsins, hefir ekki riðið feitum hesti frá þeim málum síðan. Það hefir verið sagt um hann, að hann væri útlagi tveggja konungsríkja, svo að manntetrið hefir ekki farið sem bezt út úr þessum samningum sínum við íhaldið.

Hv. þm. G.-K. má gjarnan monta af meiðyrðamálum sínum, og ég get jafnvel óskað honum til hamingju með það einstaka fordæmi, sem hann hefir þar valið sér til fyrirmyndar. Það er kunnugt, að danski ráðherrann Alberti var sífellt í meiðyrðamálum og hélt mjög á lofti sigrum sínum í meiðyrðamálum, þangað til hann lagði upp í för sína til Horsensfangelsis. Ég öfunda ekki þm. G.-K. af meiðyrðamálum sínum eða hinu einstaka fordæmi í þingsögu norrænna þjóða, sem hann hefir valið sér til eftirbreytni.