03.06.1932
Neðri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

1. mál, fjárlög 1933

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég vildi gjarnan undirstrika þá yfirlýsingu, sem hv. þm. V.-Húnv. gaf um það, hvað fyrrv. stj. hefði haft í huga, ef fjárl. hefðu verið felld á þessu þingi. Hann sagði, að hún hefði þá orðið að stjórna samkv. bráðabirgðafjárlögum. Mér virðist svo sem ýmsir kekkir ætli nú að fara að koma upp úr súpunni, ef stj. hefir verið með áform um að setja bráðabirgðafjárlög. Ég veit þá ekki, hvaða hugmyndir hún hefir um þingræðið, ef hv. þm. segir þetta fyrir hönd síns flokks og þeirrar stj., sem hann styður. Mér þætti gott að heyra um það af vörum hæstv. fjmrh., hvort hann vill staðfesta þessar merkilegu fréttir, og vænti upplýsinga um, hvort þær eru réttar; en vera má, að hv. þm. sé hér að hlaupa með hugaróra.

Hv. þm. V.-Húnv. veður reyk þegar hann segir, að við Alþýðuflokksmenn séum að gera tilraun til að svipta verkamenn atvinnu á þessu ári, með því að greiða atkv. á móti fjárl. fyrir 1933. Þetta er hrein vitleysa . Það hefir engin áhrif á fjárl. þessa árs, hvort fjárl. verða samþ. fyrir 1933. Hitt veit hv. þm. líka, að þetta er gagnstætt því, sem hann hefir áður sagt. En hann skiptir svo oft um skoðun, þessi hv. þm. Það er skemmra milli skoðanaskipta hans á hv. 2. þm. Skagf., sem hann nú væntanl. styður til ráðherradóms. En það gerist margt kynlegt á þessum tímum.

Hv. þm. má vita, að fjárl. gilda til loka þessa árs, og að tekjustofnar eru óbreyttir á þessu ári, bæði verðtollurinn og gengisviðauki, þó fjárl. hefðu verið felld fyrir næsta ar. Ég geri ráð fyrir, að þó ekkert hefði verið breytt um tekjustofna, en nægilegur vilji verið fyrir hendi hjá stj., þá hefði ríkissjóður, með því sem talið er í sjóði um áramót, getað fullnægt þeim lögbundnu greiðslum til verklegra framkvæmda í fjárl. þessa árs, sem mun vera um eða innan við 1/2 millj. kr., fyrir utan það, sem ætlað er til vegaviðhalds og sjálfsagt er farið að nota nú þegar að einhverju leyti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að taka fleira fram í þessu sambandi. En mér væri mjög kært, ef hæstv. núv. fjmrh. — og væntanl. forsrh. á morgun — vill skýra frá því, hvort það hafi verið ætlun stj. að stjórna eftir bráðabirgðafjárl., ef fjárlagafrv. hefði verið fellt á þessu þingi.