03.06.1932
Neðri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

1. mál, fjárlög 1933

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég verð fyrst að víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. fjmrh. sagði. Hann taldi, að ég hefði ekkert tilefni haft til þess að beina til sín þeirri fyrirspurn, sem ég varpaði fram um fyrirætlanir stj., ef fjárlfrv. hefði verið fellt. Þetta þykir mér ómaklega mælt af hæstv. ráðh., þar sem spurningin er beinlínis fram komin vegna þeirrar yfirlýsingar, sem einn af tryggustu fylgismönnum stj., hv. þm. V.-Húnv., gaf um þetta efni. Þó að hv. þm. vilji nú endurskoða það, sem hann áður sagði, og gefa það út í breyttri mynd, þá vita allir hv. þdm., að hann sagði beinlínis, að ef fjárlfrv. hefði verið fellt á þessu þingi, þá hefði landinu verið stjórnað með bráðabirgðafjárlögum. Fram hjá þessu er ekki hægt að komast, hvorki fyrir hv. þm. V.-Húnv. né hæstv. fjmrh. Að hv. þm. hafi aðeins verið að fleipra með þetta frá sjálfum sér, er harla ótrúlegt, eftir alla þá miklu flokksfundi, sem haldnir hafa verið í stjórnarflokknum, bæði fyrir og eftir fæðingu hinnar nýju stjórnar.

Ég er hræddur um, að hv. þm. þurfi líka að endurskoða þau ummæli, er hann hafði í síðari ræðu sinni, að vegna þess að 4 jafnaðarmenn, sem sæti eiga í þinginu, væru búnir að leggja allt í flag, þá hefði Frmsfl. orðið að taka höndum saman við höfuðandstæðinga sína í stjórnmálum. Eftir þessu að dæma erum það ekki við jafnaðarmenn, sem erum höfuðandstæðingar þessa hv. þm. í stjórnmálum. hetta er sú skemmtilegasta skollavitleysa, sem ég hefi vitað nokkurn mann gera í pólitík.