28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég heyrði ekki ræðu hv. 1. þm. Rang., er hann talaði fyrir brtt. þeirri, er hann bar fram við brtt. mína. Við höfum nú átt tal við hafnarstjóra um þetta mál. Það er alls ekki meining okkar að standa á móti því, að Rvík fái það hafnarsvæði, sem henni er nauðsynlegt. En ég vil standa á móti því, að hún geti gengið á rétt nágranna sinna. Og því verður ekki borið á móti, að frv. skerðir umráðarétt næstliggjandi sveita og þeirra einstaklinga, sem þar eiga land að sjó. En þetta má laga, og í því skyni bar ég fram brtt. mína. — Ég vil geta þess, að það var alls ekki tilætlun mín, að skip, sem eru afgreidd frá Viðey, væru gjaldfrí til Rvíkur, ef þau athöfnuðu sig á innri höfninni, fremur en önnur skip. En ég ætlast til, að þau þurfi ekki að vera gjaldskyld, þótt þau varpi akkerum á ytri höfninni. Slíkt væri líka fullkomin ósanngirni, eftir að búið er að þenja hafnarsvæði Rvíkur að netalögum Viðeyjar, sem eru, eins og kunnugt er, 60 faðmar frá landi um stórstraumsfjöru.

Það er satt, að vandkvæði eru á vetrarlægi fyrir skip hér. Eiðsvík og Skerjafjörður eru bezt til þess fallin, en þó hvorugt fullnægjandi, ef skipastóll eykst. Því er nauðsynlegt, að vetrarlægi sé á báðum þessum stöðum. En þá verður Eiðsvík að vera undir umráðum og eftirliti einhvers og þá helzt hafnarstjóra Rvíkur. Ég myndi fremur kjósa að gjalda 10–15 kr. á mánuði fyrir skip, sem lægi undir eftirliti, en að láta það liggja án eftirlits endurgjaldslaust. Þau skip, sem sokkið hafa á Skerjafirði og Eiðsvík, hafa auðvitað sokkið þar, af því að ekkert eftirlit hefir verið með þeim.

Eins og ég hefi tekið fram, er ég því andvígur, að Rvík geti gengið á rétt nágrannanna og skattlagt þá, og vil láta byggðarlögin njóta fulls réttar. Það hefir farið svo, að þótt Rvík hafi seilzt til landa og hagsmuna, hefir hún jafnan náð því, er hún hefir viljað, með frjálsu samkomulagi, og svo mun enn fara. Þess er ekki að vænta, að héruðin vilji láta af höndum rétt sinn fyrir ekki neitt. Samkomulag mun verða báðum aðiljum fyrir beztu.