17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

557. mál, sjúkrasamlög

Frsm. (Pétur Magnússon):

Mér finnst hv. 3. landsk. ekki hafa tekið það nægilega til greina, að hér er um kostnað að ræða, sem ekki verður komizt hjá. Þó að þessi leið verði ekki farin, sem ég vil kalla að gefa sjúkrasamlögunum betri kjör við landsspítalann en öðrum, kemur þessi kostnaður eftir sem áður fram í aukinni fátækraframfærslu, og það er hætt við því, að hækkun á hluta ríkissjóðs af sjúkrakostnaði fátækraframfærslunnar nemi ekki til muna minnu en þeim styrk, sem hér er farið fram á til samlaganna. Það verður ekki véfengt, að sjúkrasamlögin hafa dregið mikið úr fátækraframfærslunni með því að gera mönnum kleift að komast yfir sjúkdómsörðugleika, sem ella hefðu neytt þá til að leita á náðir hins opinbera. Er hér um mjög óeigingjarnt starf að ræða, þar sem er starfsemi sjúkrasamlaganna, þegar menn beita sér fyrir því að hjálpa meðbræðrum sínum, þeim sem verst eru stæðir, án þess að hafa af því nokkra hagnaðarvon, og finnst mér því ekki nema sanngjarnt, að löggjafarvaldið líti á þetta og styrki þessa sjálfsbjargarviðleitni manna svo sem föng eru frekast til, og verð ég í lengstu lög að vænta þess, að hv. d. snúist ekki á móti jafnsjálfsögðum ákvæðum og þessi eru.